139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[23:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu, ætla hins vegar að taka eitt mál fyrir og ræða sérstaklega vegna þess að mér ofbýður fullkomlega hvaða leið er lagt til að hér verði farin. Hvað aðra þætti málsins varðar tek ég undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni, hann á að vísu eftir að tala [Hlátur í þingsal.] en ég veit hins vegar að við erum alveg sammála í þessu máli.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst algjörlega, ég veit ekki hvernig ég á að orða það pent en það er um þá grein að neyða Reykjavíkurborg til að fjölga borgarfulltrúum. Reykjavíkurborg gæti tekið upp á því á morgun að ákveða að fjölga borgarfulltrúum. Það er heimild fyrir því. En, nei, Alþingi Íslendinga ætlar að neyða borgarstjórn Reykjavíkur og Reykjavíkurborg til að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í að lágmarki 23. Þeir fá að vísu valið frá 23 upp í 31.

Virðulegi forseti. Hvað gengur mönnum til? Ég sá röksemdir á internetinu um að þetta væri einhver sérstakur réttur borgarinnar. Auðvitað er ekkert fjær lagi og ef við ætluðum að fara í slíkar tölur mundi ýmsum kjörnum fulltrúum fjölga úti um allt. Aðalatriði málsins er að það þýðir ekki fyrir menn að koma hingað og segja að þeir vilji efla sjálfstæði sveitarfélaganna, treysti sveitarfélögum til að fara með sín eigin mál og ætla svo að neyða Reykjavíkurborg til að fjölga borgarfulltrúum. Ég get alveg lofað því, virðulegi forseti, að vinnubrögðin í borgarstjórn Reykjavíkur verða í það minnsta ekki betri við það að neyða hana til að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23, ég tala nú ekki um í 31. Stjórn borgarinnar verður ekkert betri við það, það er alveg deginum ljósara. Bara til að setja málið í eitthvert samhengi, ef þetta frumvarp nær fram að ganga og menn ganga alla leið verða borgarfulltrúarnir helmingurinn af þeim þingmönnum sem eru að vísu ekki í salnum núna, sem sagt helmingurinn af kjörnum þingmönnum.

Virðulegi forseti. Þetta er fullkomlega óskiljanlegt og við sjálfstæðismenn munum flytja breytingartillögu um þetta. Ég trúi ekki öðru en að sjálfstæðir hv. þingmenn muni greiða atkvæði með þeirri breytingartillögu. Það er algjörlega útilokað að það verði eitthvert flokksræði í því. Ég hvet menn til að koma í veg fyrir þetta slys.