139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[09:39]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir þær vangaveltur sem komið hafa fram varðandi dagskrá dagsins. Hér er verið að ræða það hvort ökutækjatryggingamálið hefði átt að fara út af dagskrá, mál sem nefndarmenn eru þó sammála um að sé mjög vel rætt, fullbúið mál og brýnt mál þar að auki. Það er merkilegt að bera það saman við annað mál sem ekki er fullrætt og eiginlega mjög lítið rætt í þinginu og það er staðgöngumæðrunin. Það er á dagskrá þingsins í dag. Ég er ein af meðflutningsmönnum þess máls en tel að það mál þurfi þó mun meiri umræðu áður en hægt er að taka það á dagskrá eða til einhvers konar meðhöndlunar í þinginu og síst af öllu á síðasta degi þingsins sem er algerlega fráleitt og ekki sambærilegt við t.d. þetta mál sem við erum að ræða um núna sem er búið að ýta út af dagskránni.