139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

709. mál
[10:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar sem gerði grein fyrir breytingartillögum áðan og gerði jafnframt grein fyrir aðdraganda þeirra breytingartillagna sem hann flytur nú.

Eins og hv. þm. Mörður Árnason gat um þá urðu töluverðar breytingar á ákveðnum þáttum málsins við 2. umr. og náðist um það allgóð samstaða. Eins og hann rakti komu fram athugasemdir að lokinni 2. umr. og áður en 3. umr. hófst, frá sérfræðingum á þessu sviði sem bentu á atriði sem nauðsynlegt var að lagfæra í frumvarpstextanum og sérstaklega í þeim tilteknu ákvæðum sem varða kæruaðild. Hv. þm. Mörður Árnason hefur unnið gott starf í að leiða það mál til lykta milli umræðna. Ég vil sömuleiðis þakka honum fyrir samstarfið sem hefur verið prýðisgott. Þó okkur hv. þingmann greini á um ýmsa hluti þá hefur samstarfið að þessu leyti verið prýðilegt.

Þegar við komum að niðurstöðu í málinu þurfti auðvitað að gera tilteknar, nauðsynlegar breytingar og hv. þingmaður rakti að nauðsynlegt hefði verið að skýra betur en gert var í atkvæðagreiðslu við 2. umr. hvaða ákvarðanir það væru sem kæruaðildin snerist um, samkvæmt því ákvæði sem við höfum verið að breyta fram og til baka. Þar kemur í breytingartillögu hv. þingmanns að horfið er til baka til þeirrar upptalningar, að teknu tilliti til ákveðinna breytinga, sem upphaflega var að finna í frumvarpi hæstv. umhverfisráðherra. Niðurstaðan verður þá væntanlega sú að þau atriði sem þar eru tiltekin, þau hugsanlegu kæruefni ef við getum orðað það sem svo, sem áður áttu að lúta almennri kæruaðild eða actio popularis, verða þá annars vegar bundin við lögvarða hagsmuni og hins vegar við kæruaðild umhverfis-, útivistar- og hagsmunasamtaka samkvæmt ákveðnum skilgreiningum. Ég tel að það sé í ágætu samræmi við niðurstöðuna sem náðist í 2. umr. og atkvæðagreiðslu um hana.

Ég vildi hins vegar, hæstv. forseti, gera grein fyrir því að ákveðinn áherslumunur er í málinu sem tengist nálguninni í breytingartillögunni og var raunar líka í upphaflegu frumvarpi hæstv. umhverfisráðherra, þar sem sérstaklega eru dregnar út ákvarðanir sem tengjast erfðabreyttum lífverum. Þar er ákveðinn áherslumunur sem mun væntanlega endurspeglast í atkvæðagreiðslu á eftir. Að öðru leyti er allvíðtækt samkomulag um framgang og afgreiðslu málsins.