139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

741. mál
[11:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum byltingarkenndar breytingar á lögum um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun. Þetta frumvarp er í takt við þá venju sem skapast hafði á Íslandi að innheimta félagsgjöld í gegnum ríkissjóðs. Þar var t.d. iðnaðarmálagjaldið frægast sem endaði með því að Mannréttindadómstóll Evrópu dæmi að það væri brot á mannréttindum og þá tóku menn sig til hér og breyttu því afskaplega hægt. Í stað þess að afnema gjöldin var það gert með hægagangi.

Sambærileg gjöld í íslensku atvinnulífi eru búvörugjaldið, fiskiræktargjaldið og svo þetta gjald til báta. Það er nokkuð mikið um svona gjöld sem vonandi fer nú að fækka.

Frumvarpið gekk út á að afnema II. kafla laganna. Hann er dálítið furðulegur þegar maður les hann. Ég prentaði lögin út og þar stendur að greiða eigi 8% af samanlögðu hráefnisverði skips inn á sérstakan bankareikning ef eigandi veðsetur ekki fiskafurðir sínar, þetta átti við þá sem höfðu veðsett fiskafurðir sínar með afurðaláni hjá banka. Löggjafinn var að skipta sér af bankareikningum. Síðan áttu 6% af þeim 8% sem runnu þarna inn að fara inn á vátryggingareikning skipsins hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, þ.e. vátrygging, og 2% fóru inn á sérstakan greiðslumiðlunarreikning fiskiskipa. Svo var ákvæði um að það ætti að greiða til Lífeyrissjóðs sjómanna, Sjómannasambands Íslands, Alþýðusambands Austfjarða, Farmanna- og fiskimannasambandsins o.s.frv. Það átti sem sagt að greiða félagsgjöld og iðgjöld til lífeyrissjóðs af þessum peningum sem teknir voru af útgerðinni. Í dag er þetta óskaplega skrýtin lesning. Ríkið er ekki bara að innheimta eins og iðnaðarmálagjaldið eða búnaðargjaldið, nei, bankarnir voru látnir innheimta og greiða félagsgjöld samkvæmt lögum. Frumvarpið sem við ræðum — og ég ræddi við 1. og 2. umr. — tekur þetta burt og setur inn nýjan kafla, að innheimta eigi tiltekið hlutfall, alltaf 0,5%, af samanlögðu verðmæti þess afla sem þeir taka við á opnum bátum o.s.frv., þ.e. þeir sem kaupa fisk af útgerðum, og setja það til hagsmunasamtaka útgerðarmanna. Hagsmunasamtök útgerðarmanna áttu sem sagt að láta af hendi lista yfir útgerðarmenn sem óskuðu eftir því að greiða þetta gjald eða samtök þeirra höfðu óskað eftir því. Ef menn voru í einhverju útgerðarmannafélagi voru þeir um leið skuldbundnir til að greiða þetta gjald. Samtökin gátu skuldbundið þá til að greiða gjaldið sem var tekið af þeim í gegnum bankareikninga með lögum. Félagsgjaldið var bundið við félagsmenn en menn gátu að sjálfsögðu sagt sig úr félaginu og losnað við að borga gjaldið, sá er munurinn.

Nú gerir hv. sjávarútvegsnefnd sér lítið fyrir og tekur lungann úr frumvarpinu. Lítil breytingartillaga í lok nefndarálitsins segir: „2. gr. falli brott“ Sú grein var eiginlega lunginn í frumvarpinu. Í 1. gr. frumvarpsins segir að II. kafli laganna falli brott, þá er hann farinn, og svo fer 2. gr., sem átti að taka upp þá frjálslyndu skyldu að þeir sem vildu gætu borgað, útgerðarmenn sem væru félagar væru látnir borga með lögum reyndar í gegnum bankastofnanir, þannig að nú er alveg opið hvað tekur við. Ég sé hvergi hvað á að taka við en það er kannski allt í lagi, þetta á að taka gildi 1. janúar 2012 og menn hafa þá tíma til að koma skikki á félagsmál og félagsgjöld og annað slíkt innan þessara samtaka. Það er svipað ástand og var hjá Samtökum iðnaðarins þegar iðnaðarmálagjaldið var tekið burt

Mér finnst þetta vera mjög jákvæð þróun. Þetta er það sem ég barðist fyrir. Ég hef flutt mörg frumvörp um að afnema þessi gjöld. Hér er þetta að gerast og ég hlýt að gleðjast yfir því.