139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[11:32]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég set tvo fyrirvara við þetta frumvarp sem mun framlengja leyfi til handa sjóðfélögum til að taka út séreignarsparnað sinn og jafnframt hækkar upphæðina sem sjóðfélagar geta tekið út, úr 5 millj. í 6 millj. 250 þús.

Fyrri fyrirvarinn sem ég hef á þessu tengist því að séreignarsparnaður er það sem lögfræðingar kalla óaðfararhæf eign, þannig að við gjaldþrot er séreignarsparnaðurinn ekki tæmdur til að greiða skuldir þrotabúsins. Þegar fólk er búið að fara í gegnum gjaldþrot á það enn þennan sjóð til að nota og koma sér upp nýju þaki yfir höfuðið. Með því að leyfa úttektina áfram og hækka upphæðina erum við að gera mörgum kleift að halda áfram að greiða af lánum sem annars mundu fara í þrot. Herra forseti. Ég kom hingað upp til að vara við því að fólk noti þetta sem gálgafrest.

Hinn fyrirvarinn sem ég hef við frumvarpið er að við skulum alltaf fara í vasa heimilanna til að ná í auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Þá á ég við að við séum að auka úttekt á séreignarsparnaði til að auka veltu í samfélaginu og þar með veltu skatta.

Herra forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Pétur Blöndal hvort hann sé sammála (Forseti hringir.) þessum tveimur fyrirvörum.