139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

704. mál
[11:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Flestir einstaklingar eru frjálsir og geta valið eins og þeir vilja nema þeir sem skulda og eru komnir í vandræði með skuldirnar sínar. Þeir eru ekki frjálsir. Sá maður sem stendur frammi fyrir því að missa húsið sitt, fær vink frá bankanum og ráðgjafinn í bankanum spyr: Ertu búinn að taka út séreignarsparnaðinn? Þá segir maðurinn: Nei. En ráðgjafinn segir: Ja, gerðu það þá, annars bjóðum við upp húsið þitt. Það er ekki frjáls ákvörðun. Þess vegna getur sú heimild sem hér er verið að opna á, leitt til þess að menn taki út á hverjum einasta mánuði til að borga af láninu sem bæði bankinn og skuldarinn vita að gengur ekki upp. Svo þegar maðurinn er búinn með séreignarsparnaðinn, er búinn að nýta alla þessa möguleika í botn, fer húsið hvort sem er á uppboð og eignin sem átti að vera vernduð fyrir aðförum er farin. Þess vegna mun ég ekki geta greitt þessu atkvæði.