139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[12:53]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Í þessari grein er meðal annars fjallað um að þar sem íbúar eru 10.000–49.999 skuli bæjarfulltrúar vera 11–15. Þarna er sannarlega verið að fjölga bæjarfulltrúum í nokkrum sveitarfélögum landsins. Það er hins vegar ekkert sveitarfélag með 50.000–99.999 íbúa, sem á þá að vera með 15–23 fulltrúa, og sveitarfélög með 100.000. íbúa og fleiri eiga að hafa 23–31. Breytingartillaga Marðar Árnasonar gerir það að verkum að þessum tveim flokkum er skellt saman, 50.000 eða fleiri, þannig að áfram verður hægt að ákveða það að borgarfulltrúar í borgarstjórn Reykjavíkur verði ekki fleiri en 15. Svo fáir í raun og veru, má segja, miðað við þann mikla fjölda sem hér er. Þetta er tillagan sem málið snýst um og það má eiginlega segja að maður geti verið dálítið á báðum áttum um hvernig greiða skuli atkvæði. En ég held að það sé dálítið mikið atriði, virðulegi forseti, að fjölgað verði í borgarstjórn Reykjavíkur — fyrir Framsóknarflokkinn. [Hlátur í þingsal.] Hvað þarf hann að vera stór …?

(Forseti (RR): Ekki verður nú hægt að binda það í lög.)