139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[13:07]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er lögð fram breytingartillaga við 64. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að sett skuli almennt markmið um að heildarskuldbindingar sveitarfélags séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Þetta er almennt stefnumið sem er mjög æskilegt að hafa í heiðri. Hins vegar má það ekki verða til þess að þröngva sveitarfélögum til einkavæðingar eins og dæmi eru um á undanförnum árum í því lagaumhverfi sem við búum við núna. Þess vegna er sett í lögin heimild til að undanþiggja sveitarfélög þar sem tekið verði mið af sérstökum aðstæðum.

Hins vegar eru þær ábendingar sem fram hafa komið frá hv. þm. Lilju Mósesdóttur og fleirum um þessa grein nokkuð til að íhuga mjög rækilega. Ég hef því ákveðið að skipa starfshóp sem kanni nánar reynsluna af samsvarandi lagasmíð erlendis og skili niðurstöðum sínum til innanríkisráðuneytisins og til þingsins einnig fyrir 1. nóvember.