139. löggjafarþing — 166. fundur,  17. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[13:26]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er kannski eðlilegt að þannig sé komið fyrir stjórn efnahagsmála í landinu ef veruleikaskyn hæstv. ráðherra er þannig að stjórnarandstaðan sé að lýsa með einhverjum hætti yfir trausti á þá efnahagsstjórn sem hefur verið við lýði. Ég held að hæstv. ráðherrar hafi ekki hlustað á málflutning stjórnarandstöðunnar undanfarin tvö ár, hvað þá á allar þær tillögur sem við höfum lagt fram í efnahagsmálum til að við getum komið okkur fyrr upp úr þeirri efnahagslægð sem við erum í.

Ég vil lýsa því yfir að við framsóknarmenn erum á móti því að festa þessi gjaldeyrishöft í sessi til margra ára. Þetta gengur þvert gegn ráðgjöf margra sérfræðinga sem komu á fund efnahags- og skattanefndar, en það er einfaldlega svo að ríkisstjórnin hunsar ráðleggingar í þessu máli og mörgum öðrum. Þess vegna munum við greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi og ég vil (Forseti hringir.) nota tækifærið og lýsa vantrausti mínu á þá efnahagsstjórn sem ríkisstjórnin rekur.