139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[15:41]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég verð aldrei þessu vant að taka undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni. Þessi fundur er greinilega ekki nógu vel undirbúinn. Við erum á síðasta þingdegi og nú er klukkan að nálgast fjögur. Ég bið í fullri kurteisi um skýringar á því hvers vegna málið sem var nr. 13 á dagskrá síðasta fundar, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, hefur verið tekið út af dagskrá. Ég hef fengið ýmsar skýringar á því, að það séu stjórnmálaflokkar á þinginu sem eru á móti hinum og þessum málum, og þó að það sé ekki skemmtilegt þá er kannski ekki hægt að kvarta yfir því á síðasta degi að flokkarnir noti áhrif sín til að koma málum út af dagskrá en enginn stjórnmálaflokkur hefur gefið sig fram sem var á móti máli nr. 13. Ég veit ekki af hverju það er ekki á dagskrá. Ég skil ekkert í því. Er það Sjálfstæðisflokkurinn, er það Samfylkingin kannski, sem ég er í, sem tók það mál út? Af hverju er málið ekki á dagskrá? Af hverju getur forseti ekki svarað því eða þeir þingflokksformenn sem voru á fundi með honum áðan?