139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

dagskrá fundarins.

[15:45]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir mikilli undrun á því hvernig þessi fundur hefur verið að þróast. Ég stóð í þeirri trú þegar ég gekk inn í þingsal að samkomulag væri á milli þingflokksformanna allra stjórnmálaflokka á Alþingi um að dagskráin yrði með þeim hætti sem hér er lagt til. Þá bregður svo við að hv. stjórnarliðar koma upp í unnvörpum og mótmæla því hvernig staðið er að lokum þingfundar. Í því hlýtur að felast ákveðið vantraust gagnvart þingflokksformönnum stjórnarflokkanna sem hafa samið um það hvernig ljúka eigi þessu þingi.

Svo get ég einfaldlega ekki setið undir þeim brigslyrðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur þar sem hún ræðst að þingflokki framsóknarmanna. Það eru margir tugir mála sem standa út af við lok þessa þings og ef hv. þingmenn ætla að koma hingað og telja öll þau mál upp og bera einhverjar sakir upp á ákveðna þingmenn eða þingflokka þá gengur það einfaldlega ekki upp.