139. löggjafarþing — 167. fundur,  17. sept. 2011.

samkomulag um 310. mál, staðgöngumæðrun.

[17:44]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég er mjög óþreyjufull að sjá hvernig Alþingi Íslendinga tæki á því álitamáli og svaraði þeirri spurningu hvort heimila ætti staðgöngumæðrun af velgjörð á Íslandi. Ég er þeirrar skoðunar að það sé kominn tími til að taka ákvörðun um það mál og er mjög óþreyjufull að gefa Alþingi tækifæri til að taka afstöðu til þess. Þess vegna er ég, og get viðurkennt það, hundfúl yfir því að þetta mál komi ekki til lokaafgreiðslu í dag eins og ég hafði væntingar um.

Í trausti þess og með hagsmuni þessa máls að leiðarljósi fellst ég á og er aðili að því samkomulagi sem við þingflokksformenn náðum á fundi okkar fyrr í dag. Í trausti þess að það verði einmitt eins og hv. þm. Þuríður Backman rakti, og ég skal sjá til þess að málið verði lagt fram í upphafi þings, að málið fái næga umræðu við fyrri umr., fari til nefndar sem ég vona að afgreiði málið og sinni því jafn vel og var gert í núverandi heilbrigðisnefnd og að málið komi svo til síðari umr. og verði gefinn sá tími sem þarf til að ólík sjónarmið og skoðanir fái að koma í ljós fellst ég á samkomulagið. Það sem er mikilvægast í því er að málið gangi til atkvæða. Það er það sem við þingflokksformenn komum okkur saman um í dag á okkar fundi, þ.e. að málinu verði lokið með atkvæðagreiðslu á haustþingi og, eins og hv. þm. Þuríður Backman sagði, að við lendum ekki aftur í þeirri stöðu að þurfa að taka málið út af dagskrá vegna tímaskorts í lok þings.