140. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2011.

fjárlög 2012.

1. mál
[11:12]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég geri mér það alveg fullljóst að hæstv. fjármálaráðherra eða aðrir dikta ekki upp neinar hagspár. Áhyggjur mínar af þeim þætti málsins liggja í því að ef spá Seðlabankans gengur eftir þýðir það í rauninni tekjusamdrátt hjá ríkinu upp á rúma 6 milljarða, lauslega áætlað. Í því liggur munurinn á þessum tveimur spám og ég ætla að fjármálaráðuneytið gaumgæfi það í hverju sá mismunur geti legið og ég vonast til þess að fjárlaganefnd fái í það minnsta upplýsingar um það.

Mér þótti hæstv. ráðherra svara tæplega og illa þeirri spurningu sem laut að einstökum ákvörðunum varðandi þann viðsnúning sem við var að glíma. Ég hefði álitið að þjóðinni bæri mesta þökkin fyrir það að forða okkur frá endanlegu gjaldþroti með þjóðaratkvæðinu um Icesave-reikningana í byrjun árs 2009. Ég byði ekki í þau fjárlög ef þau áform íslenskra stjórnvalda hefðu gengið eftir sem birtust landslýð fyrir áramótin 2008/2009.