140. löggjafarþing — 5. fundur,  6. okt. 2011.

staða lögreglunnar og löggæslumála.

[11:10]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Lögreglumenn sinna afar brýnu hlutverki í almannaþjónustunni og rétt eins og í tilviki kennara og heilbrigðisstarfsfólks verðum við að tryggja að þeir njóti sannmælis og sanngjarnra kjara í hlutfalli við mikilvægi starfa sinna í samfélaginu.

Okkur hættir til að smyrja þunnt og stjórnvöld á krepputímum hafa gert það alls staðar um veröldina. Það er eitt af því sem við þurfum að breyta. Við þurfum að hafa hugrekki til að kasta gömlum venjum þegar kemur að forgangsröðun í ríkisfjármálum, forgangsraða miklu skýrar til að verja grunnstoðirnar en vera óhrædd við að fresta og hætta verkefnum sem ekki hafa beina tengingu við brýna almannahagsmuni á þessum óróatímum.

Í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram fyrir nokkrum dögum er 11,5 milljörðum kr. varið í löggæslustofnanir og öryggismál, þar af tæpum 4,2 milljörðum í embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum. Við hljótum hins vegar að spyrja okkur við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum hvort réttlætanlegt sé að verja 1.200 millj. kr. á ári í embætti ríkislögreglustjóra á sama tíma og almenna löggæslan býr við svo þröngan kost sem raun ber vitni. Ég tel full rök og brýnt tilefni til að forgangsraða upp á nýtt, færa fjármagn yfir í almennu löggæsluna en draga saman seglin hjá embætti ríkislögreglustjóra samkvæmt því almenna stefnumiði að forgangsröðun á þessum þrengingartímum eigi að byggja á því að styrkja sjálfa almannaþjónustuna í landinu en draga saman seglin í stjórnsýslustofnunum eins og kostur er.

Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að við getum ekki haldið áfram að vinna öll þau verk sem unnin voru í stjórnsýslunni á árunum fyrir hrun. Við höfum einfaldlega ekki efni á því. Það verður að fara kerfisbundið í gegnum alla málaflokka og fella niður og fresta verkefnum sem ekki eru nauðsynleg á þessum tímum. Við verðum að beita markvisst tækjum eins og að ráða ekki í störf sem losna vegna náttúrulegrar starfsmannaveltu, sameina og fækka stjórnendum (Forseti hringir.) þar sem kostur er og forgangsraða grimmt í þágu beinnar þjónustu við almenning í landinu.