140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

lög um ólögmæti gengistryggðra lána.

[13:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Sú löggjöf sem hv. þingmaður rifjar upp var sett í fyrra til að tryggja öllum lántakendum þann rétt sem Hæstiréttur hafði dæmt tilteknum einstaklingum í dómum 16. júní og 16. september í fyrra. Markmið löggjafans er alveg skýrt, að koma þeim rétti til allra skuldara þannig að fólk þurfi ekki í hverju og einu tilviki að fara í mál. Það er líka skýrt markmið löggjafans að skapa ríkinu ekki bótaskyldu með því að ganga inn á stjórnarskrárvarin eignarréttindi kröfuhafa. Margir töldu jafnvel að við gengjum of langt með þeirri löggjöf sem sett var fyrir ári.

Eftir standa nú nokkur atriði þar sem einstakir skuldarar telja að þeir njóti enn ríkari réttar en við gátum lesið út úr dómi Hæstaréttar í fyrra. Á það þarf að láta reyna með dómi Hæstaréttar. Hv. þingmaður segir að hópur fólks hugleiði hópmálsókn. Hún þarf auðvitað að snúa að því hver réttileg uppgjörsregla er á hinum gengistryggðu lánum sem dæmd hafa verið ólögleg, en það er aldrei á færi löggjafans og var ekki með þessum lögum frekar en öðrum á færi hans að svipta fólk rétti sem það hafði til uppgjörs í samræmi við stjórnarskrárvarinn eignarrétt. Dómsmál hlýtur að snúast um það með hvaða hætti Hæstiréttur telur rétt að reikna afborganirnar afturvirkt og því verður Hæstiréttur að svara. Þingið tók á því fyrir ári í samræmi við þá leiðsögn sem hægt var að lesa út úr dómi Hæstaréttar. Ef Hæstiréttur kemst að annarri niðurstöðu er auðvitað einboðið að fólk njóti þess réttar.