140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

lög um ólögmæti gengistryggðra lána.

[13:38]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er einkennilegt ef hæstv. ráðherra hefur ekki komið auga á ábendingar þess efnis að löggjafanum hafi mistekist að tryggja skuldurum þá réttarstöðu sem leiða átti af niðurstöðu Hæstaréttar. Um það snúast ábendingarnar, það að löggjafinn hafi einmitt svipt menn eðlilegri niðurstöðu dómsins með nýrri löggjöf sem fólk þarf núna að höfða sérstakt dómsmál til að hnekkja. Það er þetta sem er svo óeðlilegt við málið í heild sinni.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þingið er auðvitað ekki í færum hvað viðvíkur stjórnarskránni að grípa þannig inn í stöðuna en við erum kannski hér, eða meiri hlutinn sem samþykkti lögin — lögin voru ekki samþykkt með samþykki okkar sjálfstæðismanna — er kannski búinn að setja fólk í þá stöðu að það þarf einmitt að höfða sérstakt dómsmál til að fá réttarstöðu sína skýrða.

Spurning mín snýr einfaldlega að því hvort það er ekki tilefni núna, (Forseti hringir.) áður en fólk þarf að feta þessa löngu dómstólaleið til að fá úr þessu skorið fyrir okkur á þinginu, að skoða þetta betur. Er ekki ráðherrann tilbúinn að gera það sjálfur?