140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

fækkun sparisjóða.

[13:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ég hef borið hag sparisjóðanna fyrir brjósti og alveg hárréttar tilvitnanir í þau frumvörp og ræður sem ég hef haldið um þau mál á Alþingi.

Ég varaði við því að sparisjóðunum — mig minnir að það hafi verið SPRON sem var leyft að fara að selja stofnbréf sín á yfirverði og ég dreg enn í efa að það hafi staðist lög. En þáverandi stjórnvöldum fannst þetta allt í lagi. Að vísu var lögunum örlítið breytt en þó ekki nægjanlega til að taka á því að koma í veg fyrir að sparisjóðirnir færu síðan í brask með stofnbréf sín. Þeim var það aldrei ætlað að mínu mati. Stofnbréf voru fyrst og fremst baktrygging eða stuðningur af hálfu þeirra manna eða fólks sem ætlaði að standa að baki sínum sparisjóðum en ekki að ná í gegnum það völdum eða áhrifum eða uppsöfnun og ná þannig valdi á þeim. Ég varaði við þessu og gagnrýndi og þess vegna flutti ég þær tillögur sem hv. þingmaður minntist á og ég er enn þeirrar skoðunar.

Mér þykir leitt hvað hefur dregist að fara í rannsókn á sparisjóðunum, á hruni þeirra eins og annarra fjármálastofnana og fara ofan í þau mál þar. Ég er enn svo bjargfast þeirrar skoðunar að setja eigi sparisjóðunum mjög ströng lög og reglur sem tryggja að þeir starfi sem sparisjóðir en ekki sem almennar bankastofnanir þar sem hlutafé ræður afli. Ég er enn þeirrar skoðunar og það er alveg hárrétt. Ég hef borið þessi mál inn í ríkisstjórn og áhyggjur mínar af því á hvaða vegferð (Forseti hringir.) þeir sparisjóðir eru sem nú eru undir, en ég minni hv. þingmann á góðan sparisjóð (Forseti hringir.) í okkar kjördæmi, Sparisjóð Strandamanna.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn og ráðherra til að virða tímamörk.)