140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

reglur um ársreikninga og hlutafélög.

[14:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Um helgina féll banki í Danmörku sem heitir Maxbanki og er sagður hafa notað hið íslenska módel og meira að segja hugsanlega áður en Íslendingar tóku það upp. Þetta leiðir hugann að því hvort hæstv. ráðherra og ráðuneyti hans hafi hug á því að breyta reglum um bókhald og hlutafélög þannig að peningar geti ekki farið í hring. Þarna var tíðkað að bankinn lánaði fólki til að kaupa hlutabréf í sjálfum sér. Þannig jók hann eigið fé sitt nákvæmlega eins og gerðist á Íslandi.

Nú eru komin þrjú ár frá hruni og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekkert hafi verið gert til að laga þetta. Bankarnir sýndu gífurlega mikið eigið fé, þeir sýndu mikinn hagnað en eigið féð hvarf eins og dögg fyrir sólu og maður veltir fyrir sér: Hvað er að ársreikningunum? Þarf ekki að laga eitthvað í ársreikningareglunum þannig að svona gerist ekki því að eigið fé á ekki að hverfa eins og dögg fyrir sólu? Það er mjög skaðlegt fyrir aðra hluthafa, það er skaðlegt fyrir birgja, lánveitendur og þá sem leggja peninga inn í bankann sem innlánseigendur.

Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi hug á því að breyta þessu þannig að menn geti treyst því að ársreikningar sýni réttar tölur. Menn geti treyst því að fyrirtækjum verði ekki, ég vil leyfa mér að segja stolið af minni hluthöfum eins og gerðist á Íslandi og um 60 þúsund heimili urðu fyrir barðinu á?

Þetta er mjög alvarlegt mál og tengist því að menn eru núna að reyna að finna hlutafé til að taka þátt í því að skapa atvinnu á Íslandi, auka fjárfestingu og ég sé ekki að það gerist á meðan þessi veila er í bæði bókhaldi og hlutafélagalögum.