140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

Efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

[14:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir að hefja þessa umræðu hér. Þessi mál eru mjög knýjandi nú um stundir vegna þess að lítið gerist í atvinnumálum hjá ríkisstjórninni og lítið er að gerast þrátt fyrir mikið og barnalegt hrós hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, eins og kom hér fram hjá hæstv. iðnaðarráðherra Katrínu Júlíusdóttur. (Iðnrh.: Hvað …?) Að hrósa sjálfri sér og ríkisstjórninni fyrir (Gripið fram í.) stuðning (Gripið fram í.) við atvinnuuppbyggingu í landinu. Þvílíkt og annað eins. Enda kemur það fram hér í skýrslunni, frú forseti, að á árunum 2009–2010 hafi hagvöxtur og íslenskt efnahagslíf dregist saman um 10% af vergri landsframleiðslu. Munar nú um minna. Einnig er farið yfir það í skýrslunni hversu slæleg atvinnutækifæri eru hér eftir hrun og litla aðstoð frá stjórnvöldum að fá.

Það kemur einnig fram í skýrslunni sem ég vil benda hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni á að sú stefna hefur verið ríkjandi hér á landi að selja raforku nærri kostnaðarverði sem endurspeglast í sögulegri lágri arðsemi Landsvirkjunar. Það var ekki ríkisstjórnarflokkanna í fyrrverandi ríkisstjórnum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins að ákveða þetta verð, heldur er það Landsvirkjun fyrst og síðast sem semur við sína raforkukaupendur. En sífellt má kenna fyrrverandi ríkisstjórnarflokkum um allt sem fer miður hér á landi, en því miður hefur Samfylkingin setið núna fjögur ár í ríkisstjórn og þarf ég sífellt að vera að minna þann flokk á það.

Ríkisstjórnin heykist á að klára rammaáætlun. Gert var samkomulag um að sú nefnd sem skilaði af sér rammaáætlun mundi raða nýtingarkostum til virkjana hér á landi, en svo varð ekki. Í stað þess er búið að færa deiluna aftur inn í þingsal og þingmenn (Forseti hringir.) eiga að ákveða hvað fer í nýtingarflokk, (Forseti hringir.) biðflokk og friðunarflokk. Þetta er afturför að mínu mati, en þetta lýsir sér akkúrat í því að einn þingmaður hefur lýst því yfir … (Forseti hringir.) styðji ekki (Forseti hringir.) stjórnina, verði virkjað í Neðri-Þjórsá.