140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. forsætisn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var sérkennilegt andsvar. Við erum ekki að ræða hér frumvarp, heldur skýrslu. Skýrslan verður send til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til vinnslu. Hún mun síðan vinna úr þeim tillögum sem stjórnlagaráð hefur lagt fram og að þeirri vinnu lokinni mun hún án efa leggja fram frumvarp sem mun fá þinglega meðferð í þinginu. Það tekur tíma.

Eins og ég sagði áðan legg ég ríka áherslu á að menn vandi til verka, hafi ferlið opið, nýti ný þingsköp Alþingis til að vinna þetta vel í samræmi við það sem felst í verkefnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem er ætlað að fjalla um breytingar á stjórnarskránni. Að lokinni þeirri vinnu munu án efa koma inn í þingið mál eða aðrar tillögur. Málið verður á forræði nefndarinnar frá því að við ljúkum þessari umræðu sem fer hér fram núna og síðan eigum við eftir að sjá niðurstöðu nefndarinnar.

Ég lagði til ákveðnar aðferðir við að vinna þetta í samræmi við ný þingsköp sem allir þingmenn samþykktu samhljóða hér í fyrravor og ég vonast til að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hafi kynnt sér þannig að hún átti sig á hvernig þessum vinnubrögðum verður háttað í nefndinni.