140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þá vegtyllu sem þingmaðurinn afhenti mér hér. Ég veit ekki til þess að ég sé sérstakur talsmaður þjóðaratkvæðagreiðslna hér á Alþingi en þær eiga vissulega stundum rétt á sér, það er alveg hárrétt. Ég held að það sé nokkuð skýrt í lögum hvernig fara beri með tillögu sem þessa. Ég er hins vegar, þannig að það sé alveg á hreinu, á móti því að senda þetta frumvarp til einhvers konar ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eða skoðanakönnunar. Ég held að þetta eigi að vera í því ferli sem hér hefur verið kynnt.

Eflaust eru í þessu plaggi mjög margar góðar tillögur sem þarf að taka til meðferðar og ræða, ég ætla ekkert að neita því. Þarna eru hins vegar ákveðnir hlutir, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, sem ég átta mig ekki á af hverju eru þarna eða hreinlega skil ekki. Það þarf því að fara yfir þær tillögur og skýra.

Ég ítreka enn og aftur að ég hef áhyggjur af því hvernig til þessa var stofnað. Mér finnst grunnurinn til að standa á til að segja við þessa vinnu að það sé breið samstaða um málið á Alþingi ekki nógu traustur. Mér finnst traustið vanta vegna þess að það var engin samstaða um það ferli sem hér var farið í. Þegar hér var kosið um hvort skipa ætti þetta stjórnlagaráð eða ekki munum við hvernig ræðurnar voru og hvernig það skipaðist. Mér finnst algjörlega vanta að sá grunnur sé sterkari. Ég hefði viljað sjá hér miklu meiri samstöðu um þá ferð sem var farin. Ég sagði í þeirri atkvæðagreiðslu að fyrst þetta hefði farið eins og það fór hefði verið skárra að byrja upp á nýtt og fara þessa stjórnlagaþingsleið frekar en að fara þá leið sem var farin. Það hefði verið skárra og að sjálfsögðu stend ég við það.