140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[16:55]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég upplifi það ekki sem svo að það sé verið að styrkja þingræðið sérstaklega á kostnað einhvers styrkleika hjá forsetaembættinu, heldur þvert á móti. Ég sé til að mynda ekki hvers vegna í ósköpunum embætti forseta Íslands ætti að koma að því að skipa dómara. Ég tel að þar séu menn komnir út fyrir eðlilega þrískiptingu valdsins.

Ég sat ekki undir ræðu forseta Íslands við þingsetninguna af eðlilegum ástæðum. Það er samt alveg ljóst af öllum þeim umræðum sem spruttu af henni að það eru fleiri skoðanir en ein á þeim ákvæðum sem hv. þm. Guðmundur Steingrímsson nefndi. Forseti Íslands mun hafa talið það sjálfsagt og eðlilegt, ekki aðeins að forseti gerði tillögu um forsætisráðherra og veldi hann heldur kannski sérstaklega að þá væri til þess ætlast að það val væri algerlega opið innan þings sem utan. Það er það sem ég hef heyrt vitnað í orð hans og það er það sem ýmsir stjórnlagaráðsmenn hafa gagnrýnt.

Það sem ég sagði áðan og vil endurtaka er að ef menn geta túlkað þessi mikilvægu ákvæði um þingræðið svo ólíkt sem raun ber vitni þurfum við að lúslesa þetta en við þurfum fyrst og fremst að spyrja okkur sjálf: Viljum við þingræði eða viljum við bandarískt forsetaræði?