140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[18:06]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að lýsa yfir ánægju með það á hvern rekspöl þetta mál er komið og fagna því að við skulum núna hafa tekið tillögur stjórnlagaráðs til umræðu í þinginu. Eftir allar þær hindranir sem lagðar hafa verið í götu þessa máls í gegnum tíðina er það sérstakt ánægjuefni að við skulum þó vera stödd hér og að hefja þessa efnislegu umræðu um skýrslu forsætisnefndar þar sem hún leggur fyrir Alþingi tillögur stjórnlagaráðsins ásamt skýringum, þetta plagg. Tillögur stjórnlagaráðsins hefjast með þessum fallegu orðum, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag …“

Síðan eru í I. kafla plaggsins undirstöðurnar lagðar með stjórnarforminu og réttindum og skyldum borgaranna. Í II. kafla er fjallað um mannréttindi og náttúru og því næst, í köflunum þar á eftir, um Alþingi, forseta Íslands, ráðherra og ríkisstjórn, síðan dómsvaldið, sveitarstjórnirnar og loks utanríkismálin.

Uppröðun efnisatriða í þessum tillögum stjórnlagaráðs er ekki tilviljun í mínum huga og það er ekki oft sem ég nýt þeirrar ánægju að fá að þenja mig sem bókmenntafræðingur úr þessum ræðustóli en það geri ég að þessu sinni og sé þar af leiðandi ákveðið samhengi í orðnotkun og uppbyggingu plaggsins. Það er engin tilviljun í mínum huga að orðin „við sem byggjum Ísland“ er það fyrsta sem nefnt er í nýju frumvarpi, þ.e. fyrst kemur þjóðin, svo kemur landið sem frjálst og fullvalda ríki, þá stjórnvöldin.

Það er margt fallegt í þessum tillögum. Þar er tekið inn hugtak sem ekki heyrist oft í nútímalöggjöf, þ.e. frá því að Jónsbók var aflögð sem lagatexti. Nú bið ég hv. þm. Birgi Ármannsson að leggja við eyru, hann ætti að kannast við þetta eins og ég. Hér er tekið upp hugtakið „mannhelgi“, þetta fagra orð sem hefur svo mikla grundvallarþýðingu sem hugtak í mannlegu samfélagi en heyrist allt of sjaldan. Ég held að þetta orð komi ekki fyrir í nema þrem eða fjórum lagabálkum og þá í lögum um málefni sjúklinga, en í öðrum lögum er það illu heilli fjarverandi og það er fjarverandi í núverandi stjórnarskrá.

Í 8. gr. frumvarpsins er svo talað um mannlega reisn og réttinn til að lifa með reisn.

Ég vil fá að nefna eitt orð enn sem ekki er í núverandi stjórnarskrá og er ekki þýtt í löggjöf okkar Íslendinga, orðið „friður“. Orð hafa þýðingu og sköpunarmátt. Orð segja til um hugarfar þess sem talar og væntingarnar gagnvart þeim sem talað er til. Stjórnlagaráðið hefur augljóslega verið sér vel meðvitað um merkingu þeirra orða sem valin eru inn í þetta nýja frumvarp, ef ég má kalla þetta frumvarp, og orðnotkunin þar ber höfundum sínum gott vitni og uppbygging skráarinnar er augljóslega þaulhugsuð, bæði merkingarfræðilega, pólitískt og fagurfræðilega.

Það eru ýmis nýmæli og breytingar í tillögum stjórnlagaráðs sem mig langar aðeins að fá að nefna áður en ég vík máli mínu að sjálfri málsmeðferðinni. Ég hef þegar nefnt þetta með mannhelgiákvæðið sem við sjáum í 10. gr. Ákvæði er um varðveislu menningarverðmæta í 32. gr., þ.e. dýrmætra þjóðareigna sem heyra til íslenskum menningararfi eins og þjóðminjar, fornhandrit o.fl. sem ekki má eyðileggja eða afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

Ég vil líka nefna ákvæði 34. gr. um náttúruauðlindir þess efnis að, með leyfi forseta, „auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja“.

Í sömu grein segir, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Þetta er gríðarlega mikilvægt ákvæði og eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson benti á áðan gæti það líka kannski komið við einhverja sem hugsanlega gætu þá í framhaldinu reynt að leggja stein í götu þeirra breytinga sem hér eru lagðar til. En veldur hver á heldur og ég treysti þinginu til að taka vel á þessu máli og tryggja með öruggri og fumlausri málsmeðferð að þær breytingar sem hér eru lagðar til fái góða og málefnalega umfjöllun og góðar lyktir.

Það ákvæði um náttúruauðlindirnar sem ég geri hér að umtalsefni er ekki síst mikilvægt nú þegar við stöndum frammi fyrir því að gera gagngerar breytingar á lagaumhverfi auðlinda okkar, ekki síst breytingar á fiskveiðistjórn okkar til framtíðar. Það er mikilvægt að allir hlutaðeigendur geri sér grein fyrir ákvæðum komandi stjórnarskrár um nýtingu náttúruauðlinda okkar og afstöðunni sem liggur þar að baki.

Þá fagna ég ákvæði 35. gr. sem kveður á um upplýsingaskyldu stjórnvalda varðandi ástand umhverfis og náttúru og áhrif framkvæmda þar á. Í þessu ákvæði eru stjórnvöld skylduð með beinum hætti til að upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun. Þetta er mikilvæg breyting því að fram að þessu hefur skylda stjórnvalda ekki náð lengra en til þess að veita umbeðnar upplýsingar. Frumkvæðisskyldan hefur hins vegar ekki verið orðuð með beinum hætti líkt og hér er gert og það er til mikilla bóta. Við vorum harkalega minnt á galla þessa fyrirkomulags fyrir um það bil ári þegar upp komst um mikla díoxíðmengun í nokkrum sorpbrennslustöðvum á Íslandi og í ljós kom að opinberar stofnanir sáu hvorki ástæðu til aðgerða mánuðum og missirum saman né heldur þótti ástæða til að upplýsa íbúa í næsta nágrenni við stöðvarnar um þá hættu sem fyrir hendi var. Í þessu efni er óhjákvæmilegt að skerpa á viðbragðsskyldu stjórnvalda og opinberra stofnana gagnvart almenningi og þess vegna hef ég nú öðru sinni lagt fyrir þingið ásamt hv. þm. Birgittu Jónsdóttur og Merði Árnasyni, sem hafa setið með mér í umhverfisnefnd, frumvarp um breytingu á lögum þar sem einmitt er kveðið á um frumkvæðisskyldu stjórnvalda við upplýsingagjöf í umhverfismálum.

Þess vegna er fagnaðarefni að í þessum tillögum að nýrri stjórnarskrá skuli lagt til að þetta verði bundið í stjórnarskrá.

Það eru ýmis önnur nýmæli í frumvarpinu sem menn eiga eftir að yfirvega og taka afstöðu til, ákvæði sem draga úr ábyrgðarleysi forseta Íslands á stjórnarathöfnum en skerpa um leið, eftir því sem ég skil tillögurnar, á því grundvallaratriði að forseti landsins sitji og starfi í umboði Alþingis. Af ræðu forseta Íslands hér við þingsetningu er ljóst að hann leggur annan skilning í þær breytingar í tillögum stjórnlagaráðs og þótt ekki væri nema af þeirri ástæðu er tilefni til að ígrunda mjög vel orðalag þessarar greinar.

Önnur nýmæli eins og málskot til þjóðarinnar og nýtt ákvæði um Lögréttu sem yfirfari öll lagafrumvörp og kanni hvort þau standist stjórnarskrá og þjóðréttarlegar skuldbindingar eru að sjálfsögðu þýðingarmikil í sambandi við þessar breytingar. Kannski er ein athyglisverðasta nýlundan sú að kjósendur geti lagt fram þingmál á Alþingi. Það er líka athyglisvert að gert er ráð fyrir skyldu þingsins til að taka þingmál kjósenda til afgreiðslu innan tveggja ára og það má kannski segja að sú skylda setji um leið slík þingmál ofar almennum þingmannamálum kjörinna alþingismanna. Það er umhugsunarefni og ástæða til að hugleiða betur.

Þau nýmæli sem finna má í þessu frumvarpi eiga eftir að fá umfjöllun í samfélagi okkar og hér í þinginu. Það er mikilvægt að þau fái fulla umræðu og að hún einskorðist ekki við þennan vettvang hér, þ.e. þingið. Stjórnarskráin er skjal skrifað fyrir þjóðina og þjóðin þarf sjálf að geta farið höndum um þetta mikilvæga gagn. Hið sama gildir um fræðasamfélagið sem ég vil fá að nefna. Ég tel nefnilega mikilvægt að tillögurnar verði sendar inn á hvert heimili í landinu og að almenningi gefist svigrúm til skoðanaskipta á opinberum vettvangi um hríð þannig að málið fái eðlilega gerjun og umhugsun jafnhliða málsmeðferðinni í þinginu. Ég tel mjög æskilegt að fræðasamfélagið taki líka frumkvæði núna, efni til opins málþings um þessar stjórnlagatillögur og fjalli um þær á fræðilegan og upplýsandi hátt með aðkomu sérfræðinga í stjórnarskipunarlögum, með aðkomu stjórnmálamanna, samfélagsfræðinga og ýmissa lýðræðisunnenda. Það væri til dæmis verðugt verkefni fyrir Háskóla Íslands á 100. afmælisári skólans að taka sér slíkt fyrir hendur, svo nátengdur sem háskólinn er lýðræðisþróun og sjálfstæðisvitund þjóðarinnar.

Ef þetta er ofætlan, þ.e. að fræðasamfélagið taki sjálft frumkvæði í þessa veru, gæti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins eða forsætisnefnd þess tekið frumkvæði að slíkri ráðstefnu sem einn lið í málsmeðferðinni áður en málið verður endanlega til lykta leitt hér en mér finnst í öllu falli ástæða til að kanna hvernig best yrði staðið að fræðilegum átektum þessa máls, nú þegar tillögurnar hafa litið dagsins ljós.

Þá er vert að vekja athygli á því og minna á að stjórnlagaráðið hefur sjálft lýst sig reiðubúið til að koma aftur að málinu áður en það verður endanlega til lykta leitt og mér finnst full ástæða til að taka það tilboð alvarlega.

Frú forseti. Vel skal vanda það sem lengi á að standa, segir máltækið, og hver svo sem málsmeðferðin á endanum verður er mikilvægt að hún verði vönduð og yfirveguð og að þetta mál verði afgreitt héðan fyrir lok yfirstandandi kjörtímabils þannig að þjóðin geti kosið um nýja stjórnarskrá um leið og gengið verður til næstu alþingiskosninga. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á vandasamt verkefni fyrir höndum, að taka afstöðu til álitamála og taka af skarið um túlkunarefni en allt skiptir það gríðarlegu máli um hvernig við túlkum sérstaklega þau ákvæði sem hafa komist í ákveðinn túlkunarvanda nú þegar og að slík afstaða liggi skýrt fyrir í nefndarálitum þegar málið verður afgreitt. Öll slík gögn eru lögskýringargögn þegar upp er staðið og hafa þar af leiðandi verulega þýðingu, ég tala nú ekki um þegar málið snýst um nýja stjórnarskrá.

Við eigum, frú forseti, eftir að skiptast á skoðunum um þessar tillögur á komandi mánuðum. Sjálfsagt verða skoðanir skiptar um einstaka þætti þess, en engu að síður tel ég ljóst að þetta plagg sé ótvíræður áfangi á leið okkar til þroskaðra lýðræðis og betri stjórnarhátta og fyrir það ber að þakka. Ég ætla því á þessu stigi máls að óska okkur öllum til hamingju með þetta plagg og þakka stjórnlagaráðinu þá vönduðu vinnu sem þar átti sér stað við tilurð þessa gagns.