140. löggjafarþing — 6. fundur,  11. okt. 2011.

tillögur stjórnlagaráðs um breytingar á stjórnarskrá Íslands.

3. mál
[19:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum ansi viðamikla skýrslu frá forsætisnefnd Alþingis sem inniheldur tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Þetta ber allt saman dálítið undarlega að þannig séð en sennilega er það vegna þess hvernig málin þróuðust við hönnun og skrif stjórnarskrárinnar.

Ég hef nefnt það áður að mjög mikilvægt er að hafa ferlið á hreinu og mér finnst að við ættum öll, hv. þingmenn, að hafa það sem markmið að þjóðin greiði bindandi atkvæði um stjórnarskrána sína. Ég vil meira að segja hafa töluvert mikinn meiri hluta á bak við það og töluvert mikla þátttöku. Ég vil ekki hafa þetta þannig að einhver lítill minni hluti geti samþykkt eitthvað fyrir þjóðina. Í því skyni hef ég flutt frumvarp sem er líka til breytinga á stjórnarskránni, þ.e. breyting bara á einu ákvæði, 79. gr. Vegna þess að ég hef orðið þess áskynja að margir skilja ekki alveg hvað ég er að fara ætla ég að fara mjög ítarlega í það, frú forseti.

Sérhver breyting sem samþykkt er á stjórnarskránni þýðir þingrof, það þarf að rjúfa þing og efna til kosninga og síðan verður kosið nýtt þing. Þá er ekki greitt atkvæði um stjórnarskrána heldur er kosið nýtt þing og ef það nýja þing samþykkir stjórnarskrána, þá breytingu sem varð tilefni þess að menn rufu þing, öðlast hún gildi sem stjórnarskrá, ekki fyrr. Þetta er mjög þunglamalegt ferli og leiðir til þess, frú forseti, að þjóðin greiðir aldrei atkvæði um stjórnarskrána sjálfa, hún bara kýs eitthvert þing sem á að sjá um landsmálin næstu fjögur árin og í alþingiskosningum deila menn um hvernig þeir vilja taka á málum sjávarútvegsins eða efnahagsmálum eða eitthvað slíkt, en ekki um stjórnarskrána sem slíka. Þetta finnst mér miður. Þess vegna hef ég lagt til að einungis 79. gr. yrði breytt. Í henni segir að verði gerð breyting á stjórnarskránni á Alþingi eigi að vísa þeirri breytingu til þjóðarinnar og ef mikill meiri hluti þjóðarinnar samþykkir hana, ég er reyndar á því að 60% kjósenda ættu að gera það, gangi sú breyting á stjórnarskránni í gildi. Fyrst þyrfti þá Alþingi að samþykkja stjórnarskrárbreytingu og síðan færi hún til þjóðarinnar og ef hún samþykkir hana með miklum meiri hluta verði það að stjórnarskrárlögum, þá nýrri stjórnarskrá.

Af hverju svona mikið? Af hverju geri ég ráð fyrir 60%? Það er vegna þess að ég tel að stjórnarskrá eigi að vera sameiginlegt plagg allrar þjóðarinnar, það á að vera mjög almenn sátt um það. Menn eiga að hafa á því áhuga. Ef verið er að greiða atkvæði um stjórnarskrá og einungis mjög fáir kjósendur mæta á kjörstað er bara ekki áhugi á þeirri breytingu sem um er að ræða. Ef sáralítill hluti þjóðarinnar greiðir atkvæði með breytingunni finnst mér að hún eigi ekki að taka gildi, þá er bara ekki áhugi á þessari breytingu og þá á hún ekki að taka gildi. Það á að vera mikil og breið samstaða um allar stjórnarskrárbreytingar af því að þetta er grundvallarplagg sem borgarinn byggir rétt sinn á.

Ef þessi tillaga mín um breytingu á 79. gr. yrði samþykkt yrði hún eingöngu lögð fram sem breyting, eingöngu hún yrði samþykkt. Síðan yrði efnt til kosninga í kjölfarið um leið eins og um allar breytingar á stjórnarskránni, það yrði kosið nýtt þing og ef það þing mundi samþykkja þessa breytingu á 79. gr. tæki sú breyting gildi sem stjórnarskrárbreyting. Um leið, viku seinna eða fimm vikum seinna eða hvað það nú er, gæti hið nýja þing sent stjórnarskrána eins og hún þá liggur fyrir til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu sem yrði þá bindandi af því að búið er að breyta 79. gr. Þá yrði sú breyting bindandi sem er að mínu mati alveg nauðsynlegt. Mér finnst ankannalegt ef þjóðin á ekki að greiða atkvæði um sína eigin stjórnarskrá.

Svo hefur verið rætt nokkuð mikið um gildi orðsins eða hvað orðið sannfæring þýðir. Í mínum huga er sannfæring nokkuð sem maður trúir mjög statt og stöðugt á og það breytist ekki dag frá degi. Auðvitað getur verið að sannfæringin breytist. Menn geta upplifað eitthvað, séð eða skilið eitthvað nýtt og sannfæringin breytist en þá er sú sannfæring orðin ný og hún er eftir sem áður sannfæring sem ekki breytist auðveldlega. Hún getur ekki breyst vegna þess að eitthvert annað fólk segir eitthvað. Hún ætti að minnsta kosti ekki að gera það. Ef annað fólk vill eitthvað á ég ekki að breyta minni sannfæringu. Ef kjósendur vilja eitthvað í skoðanakönnun eða kosningu á mín sannfæring ekki að breytast. Það finnst mér og þetta er nokkuð sem mér finnst að hver þingmaður þurfi að gera upp við sig. Hvað þýðir sannfæring hans? Er það eitthvað sem sveiflast eftir einhverri þjóðaratkvæðagreiðslu? Þá mundi ég segja fyrir mig að ég mundi ekki meta þá sannfæringu mikils, að minnsta kosti er hún er ekki mjög staðföst ef hún breytist þannig. Auðvitað hafa menn sagt að ef þjóðin vill eitthvað vil ég það líka. Þá er sú staða komin upp að ef þjóðin vill eitthvað vil ég það og þá er það spurning: Hver er það eiginlega sem leiðir, hver er leiðtogi þjóðarinnar? Hver leiðir þjóðina og hvernig getur þjóðin kosið einhverja sem breyta þannig stöðugt um stefnu vegna einhverrar skoðanakönnunar úti í bæ eða einhverrar kosningar?

Ég hef margoft rætt nauðsyn breytinga, frú forseti, í mörgum ræðum vegna þess að þegar maður les stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er eins og komið hefur fram í umræðunni og nokkuð víðar greinilega þýtt og staðfært eftir dönsku stjórnarskránni. Það ber með sér, 13. gr. sérstaklega, að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Hún ber með sér að einhvern tíma fyrir einhverjum árhundruðum, ég veit reyndar ekki hversu langt er síðan en ég giska á það, hafi danski konungurinn misst valdið. Hann hefur kannski tapað einhverju stríðinu, valdið miklum hörmungum og kallað til sín þing og þingið sagt við konunginn: Heyrðu, nú verður þú bara að afsala þér völdunum. En við skulum leyfa þér að hafa þau upp á punt. Þú mátt í þykjustunni gera samninga við erlend ríki, þú mátt í þykjustunni ráða fólk o.s.frv. en það er ráðherrann sem framkvæmir vald þitt. Þannig held ég að þetta hafi gerst og þetta er þýtt yfir í íslenskar aðstæður og kemur undarlega út.

Ef einhver maður, venjulegur læs Íslendingur, les þá stjórnarskrá sem við eigum í dag sér hann að hún segir ekki satt. Þegar maður les að forseti skipi ráðherra og veiti þeim lausn má ætla að forseti sé mjög valdamikill. Svo þegar stendur að hann geri samninga við erlend ríki o.s.frv. getur maður verið sannfærður um að þetta sé valdamikill maður. Svo les maður 13. gr. og þá er þetta allt tekið til baka vegna þess að stjórnarskráin segir ekki satt. Mér finnst að stjórnarskrár eigi að vera greinilegar og skýrar og einmitt í 26. gr. kemur þetta hvað dapurlegast eða ömurlegast fram vegna þess að þar stendur að ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp skuli það lagt fyrir forsetann og hann getur neitað því staðfestingar. Þá er spurningin, frú forseti: Gildir 13. gr. þannig að hann láti ráðherrann framkvæma vald sitt um að neita staðfestingar? Hefur þetta eitthvert gildi, þetta að hann geti neitað staðfestingar?

Þegar þetta kom upp fyrst í sambandi við fjölmiðlalögin las ég þrjár lærðar greinar frá þremur mjög virtum prófessorum í lögfræði. Ég var svo hjartanlega sammála þeim öllum, frú forseti, en þær voru bara út og suður. Höfundarnir voru ekkert sammála. Þá fór maður að hugsa um það hvort eitthvað væri að undirstöðunni, þ.e. stjórnarskránni sjálfri. Það er eitthvað að eins og hún er í dag. Hún er ekki nógu skýr, hún er ekki nógu rökrétt og það er það sem menn þurfa að hafa í huga, að stjórnarskráin sé skýr og rökrétt.

Mér gefst ekki mikill tími til þess núna, frú forseti, að ræða stjórnarskrána. Ég veit ekki hvort ég á að halda hérna margar ræður til að fara í gegnum allt þetta plagg. Ég hef ýmsar athugasemdir við það. Ég hef mikinn áhuga á stjórnarskrá, því miður, það er þannig en ég gæti líka farið aðra leið, frú forseti. Ég gæti skrifað umsögn til nefndarinnar af því að ég sit ekki í henni. Ég gæti skrifað umsögn um tillögur stjórnlagaráðsins og komið þessum athugasemdum mínum þar fram. Ég hugsa að það sé betra en að tala fyrir tómum sal. Þó að ég geri ráð fyrir því að flestir þingmenn séu að fylgjast með umræðunni getur verið að eitthvað sitji ekki fast í hugum manna þegar það kemur fram í mæltu máli.

Það er eitt um kosninguna til stjórnlagaþingsins, frú forseti, ef menn skyldu einhvern tíma fara út í svona kosningar aftur þarf að takmarka fjöldann. Það gengur ekki að maður þurfi að velja á milli 500 manns. Ég reyndi það virkilega og ég las og las og þegar ég var búinn að reyna að kynna mér 100 manns — ég gat ekki einu sinni lesið um sjónarmið manna, ég vissi ekkert um þau. Ég var að reyna að kynna mér bakgrunn manna og eftir að ég var búinn að lesa um 100 manns fór að sjóða á heilanum á mér, ég bara náði ekki lengur sambandi, hvað þá þegar ég var kominn í 200. manninn eða 500. manninn. Það þarf að takmarka fjöldann, annaðhvort með því að hafa forval eða með því að hafa fleiri meðmælendur. Einhvern veginn verðum við að takmarka þennan fjölda þannig að menn kjósi á milli að hámarki 100 manns og miða þá við heilann í mér. Það getur vel verið að hann sé takmarkaðri en gengur og gerist, ég veit það ekki. En svo þyrfti maður líka að vita hvaða skoðanir þetta fólk hefur á stjórnarskrá. Hvaða bakgrunn hefur það til að breyta stjórnarskrá? Það hefði maður líka þurft að vita. Ég vissi það ekki heldur. Þetta var eiginlega dálítil úllendúllendoff-aðferð, frú forseti, ef ég má segja það þannig, því miður.

Hins vegar tel ég að stjórnlagaráð sem hét stjórnlagaþing lengi framan af hafi unnið ansi gott starf. Þær tillögur sem hér koma fram eru að meginhluta nokkuð góðar. Ég var í nokkrum vanda þar sem ég sit á löggjafarsamkomunni um hvort ég mætti blanda mér í störf stjórnlagaráðs með því til dæmis að ræða við fulltrúana um hugmyndir mínar um stjórnarskrá. Ég komst að þeirri niðurstöðu að það gengi eiginlega ekki af því að Alþingi, ég, væri búið að fela þessu fólki að breyta stjórnarskránni. En það stangaðist á við það að ég sem borgari hafði náttúrlega rétt á því að taka þátt í þessu starfi eins og var auglýst svo ég lenti í dálitlum vanda. Ég hafði eiginlega mjög lítið samband við stjórnlagaráðið nema ég átti einn fund í smástund með formanni sem var ágætt. Ég held að það hafi ekki haft mikil áhrif, ég veit það ekki en það var ágætt.

Til hvers er stjórnarskrá, frú forseti? Til hvers hafa menn stjórnarskrá? Það er til að tryggja grunnréttindi borgaranna og í rauninni verður borgarinn aldrei var við stjórnarskrána, sem betur fer því að það er einmitt þegar eitthvað bjátar á sem stjórnarskráin á að bjarga honum.

Illugi Gunnarsson nefndi áðan að fegursta stjórnarskrá heimsins væri sennilega í Sovétríkjunum og menn vita hvernig hún var framkvæmd. Það hefur ekkert upp á sig að hafa fallega stjórnarskrá, ekki neitt, ef hún er ekki framkvæmd. Hér hefur verið nefnt aftur og aftur að til dæmis félagaskylda opinberra starfsmanna í stéttarfélögum brjóti stjórnarskrá. Þingmenn hlusta á það og svo gerist ekki neitt, þeir eru ekki einu sinni sannfærðir um að þetta sé rétt hjá mér.

Iðnaðarmálagjaldið er gott dæmi. Það þarf dómstól úti í heimi til að koma því inn hjá löggjafanum á Íslandi að stjórnarskráin hafi verið brotin í mörg ár. Við höfum ekki farið eftir þeirri stjórnarskrá sem við höfum. Það er spurning hvað gerist með þessa nýju. Ég er að vonast til þess að fólk verði ekki með of miklar væntingar um að við fáum nýja stjórnarskrá og að allt í einu verði allt gott á Íslandi. Ég held ekki. Það er nefnilega framkvæmdin, hvernig menn túlka stjórnarskrána og hvað menn eru viljugir til að líta fram hjá henni líka sem skiptir máli.

Í stjórnarskránni er talað um að það megi ekki skuldbinda ríkissjóð. Ég er búinn að nefna þetta aftur og aftur. Samt er verið að skuldbinda ríkissjóð út og suður alla daga og það virðist ekki hafa nein áhrif þannig að menn bera ekki mikla virðingu fyrir núgildandi stjórnarskrá. Það er alvarlegt, frú forseti. Við erum að tala um að breyta henni. Er það líka bara upp á punt?

Stjórnarskráin er til þess að ef brotið er á borgurunum sé hún þeim til stuðnings. Hvað á stjórnarskráin eiginlega að tryggja mönnum? Fyrst og fremst mannréttindi. Hún á ekki að tryggja honum ríki.

Til hvers höfum við ríki? Til hvers skyldum við hafa ríki, frú forseti? Til að tryggja mannréttindi borgarans, eingöngu til þess. Þess vegna finnst mér að I. kafli stjórnarskrárinnar eigi að vera bara um mannréttindi. Síðan kemur II. kafli og í honum ætti að segja: Við Íslendingar stofnum ríki til að tryggja borgurunum mannréttindi. Þannig vildi ég hafa þetta. Svo vildi ég hafa þrískiptingu valdsins sömuleiðis til að tryggja borgarann enn frekar fyrir því mikla valdi þess ríkis sem við stofnum þannig að valdið sé þrískipt. Það vantar líka í þessa nýju stjórnarskrá. Ég hefði viljað sjá í I. kaflanum í 2. gr.: Handhafar ríkisvalds eru þrír, löggjafarvald, framkvæmdarvald, dómsvald og þeir skulu vera óháðir. Það er mikilvægt.

Það er ekki sérlega sniðugt að ráðherrar séu jafnframt þingmenn af því að þá eru þeir bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald. Það er ekki nógu sniðugt því að það brýtur þessa þrískiptingu valdsins. Nú getur vel verið að menn hafi horfið frá þeirri hugsun sem franskir heimspekingar komu með, að það væri mikilvægt að hafa þrískiptingu valdsins, en þá vil ég gjarnan að menn segi mér hvernig þeir ætla að leysa málið öðruvísi. Ég hef ekki heyrt það. Ég hefði viljað að II. kafli kæmi á undan I. kafla.

Svo er hérna mjög margt sem ég hef við að athuga, frú forseti. Þetta er vel unnið en það er samt sem áður ýmislegt sem má breyta. Ég vil að stjórnarskráin sé þannig að það sé enginn misskilningur hvað hún þýði. Hér stendur til dæmis í 7. gr.:

„Allir hafa meðfæddan rétt til lífs.“

Hvað þýðir þetta, frú forseti? Má drepa mann? Er þá verið að eyðileggja meðfæddan rétt hans til lífs? Hvað þýðir þetta? Ég hefði viljað að þarna stæði bara: Engan má drepa. Það er nokkuð sem allir skilja og fer ekkert á milli mála.

Ég á lítinn tíma eftir þannig að ég veit ekki hvað ég fer langt í yfirferðinni en ég veit ekki hvort menn hafa hugsað þetta með ríkisborgararéttinn alveg til enda. Í 4. gr. stendur:

„Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang.“

Hvað þýðir þetta? Ef það kemur Dani sem giftist Íslendingi eða á með honum barn óháð giftingu eignast barnið bæði danskan og íslenskan ríkisborgararétt. Þegar annað barn á foreldra sem eru þýskir og sænskir eignast það ríkisborgararétt sem sænskur og þýskur þegn. Þegar þessi tvö börn hittast og eignast barn saman eignast það barn danskan, íslenskan, sænskan og þýskan ríkisborgararétt, sem sagt þetta eru tveir í n-ta veldi þar sem n er fjöldi kynslóðanna. Eftir þrjár kynslóðir er afkomandinn kominn með áttfaldan ríkisborgararétt og eftir fjórar er hann kominn með 16-faldan, þá 32-faldan o.s.frv. Það verður algjör verðbólga í ríkisborgararétti.

Þegar menn eru 16 eða 18 ára finnst mér að þeir eigi að velja einn ríkisborgararétt. Þá eiga þeir að segja: Ég vil vera Þjóðverji, ég vil vera Íslendingur, eitthvað svoleiðis, en eiga ekki að geta haldið allri þessari gommu af ríkisborgararétti. Þetta er eitt af því sem er svo sem ekkert voðalega stórt.

Svo er ein árátta í þessu frumvarpi, frú forseti, sem ég geri alvarlega athugasemd við. Mjög víða stendur:

Með lögum skal tryggja …

Það stendur til dæmis að það skuli tryggja fjölmiðlum frelsi. Af hverju er bara ekki sagt: Fjölmiðlar skulu vera frjálsir? Í staðinn er sagt:

„Frelsi fjölmiðla … skal tryggja með lögum.“

Stjórnarskráin er undirstaða undir öll lög þannig að þingmenn sem sverja eið að henni eiga að sjá til þess að hún sé haldin með lögum. Með þessu er verið að framselja vald stjórnarskrárinnar til Alþingis og ef Alþingi gerir ekkert í málunum gerist ekki neitt.