140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu og hamingjuóskir til okkar allra með tilboðið sem kom til okkar allra í gær.

Það er rétt, tilboð voru loks opnuð í gær eftir langt og strangt ferli. Við fengum boð upp á 95% af kostnaðaráætlun sem er þá 5% undir kostnaðaráætlun. Ég get alveg verið hreinskilinn og sagt, vegna þess að ég er keppnismaður, að ég vil alltaf fá tilboðin lægri en þau hafa verið en við jöfnum okkur á því. Þetta eru nokkuð þekktar tölur og oft eru tilboð hærri, minni frávik frá kostnaðaráætlun, í jarðgöngum en hefðbundnum vegagerðarverkum.

Hv. þingmaður spyr um fjármögnun. Samkvæmt 5. gr. samþykktra fjárlaga er heimild til handa fjármálaráðherra að fara í skuldabréfaútboð sem yrði lánað svo til félagsins á ákveðnum vöxtum sem taka mið af vöxtum ríkissjóðs að viðbættu hóflegu álagi þannig að það sé sagt. Eftir því sem ég best veit er í núverandi fjárlögum óskað eftir heimild. Sú heimild sem ég gat um áðan átti að vera fyrir suðvesturverkefni líka en við vitum að það er búið að slá þau af og horfi ég nú til hægri handar. Það er sem sagt farið en vantar viðbót hvað þetta varðar og ég veit ekki betur en að það sé inni í fjárlögum núna.

Það er sú leið, virðulegi forseti, sem lífeyrissjóðirnir vildu fara strax í byrjun. Þeir vildu frekar hafa þetta þannig að þeir keyptu skuldabréf af ríkissjóði og að ríkissjóður lánaði svo félögunum. Það slitnaði upp úr viðræðunum við lífeyrissjóðina vegna þess að okkur, fulltrúum ríkisins, fannst vaxtaálagið og vaxtatalan sem lífeyrissjóðirnir vildu lána á vera allt of há á þeim tíma. Þessi aðferð er notuð við það en það er alltaf, og það skal vera alveg á hreinu og sagt einu sinni, gert ráð fyrir því að þessi framkvæmd standi undir sér, að veggjöldin sem þarna verða rukkuð (Forseti hringir.) muni standa undir sér. Þarna er um að ræða 16 kílómetra styttingu og samkvæmt útgefnum tölum FÍB um hvað kostar að aka hvern kílómetra getur þarna verið um að ræða sparnað upp á 950–1.150 kr. sem kæmi þá upp í veggjald.