140. löggjafarþing — 7. fundur,  12. okt. 2011.

afskriftir og afkoma bankanna.

[15:49]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Vg):

Frú forseti. Í því ástandi sem ríkir á Íslandi er best að allir geri sér grein fyrir einu grundvallaratriði strax í byrjun, það er að bankar og fjármálastofnanir eru samviskulaus fyrirbæri. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Hvað hrundi hérna á Íslandi árið 2008? Voru það skólarnir? Var það heilbrigðiskerfið okkar? Hætti fólk að nenna að mæta í vinnuna? Hvað gerðist? Jú, það sem gerðist var að bankarnir og fjármálastofnanir kipptu fjárhagslegu öryggi undan íslensku þjóðfélagi með vitskertri og ófaglegri framkomu þannig að þeir fóru á hausinn, allir með tölu. Vel að merkja hafandi prangað hlutabréfum í sjálfum sér inn á íslenskan almenning og skrúfað upp verðið með ólöglegum innherjaviðskiptum.

Hvað gerðist næst? Það gerist næst að íslenskur almenningur, skattgreiðendur, „beilar“ út þessa aumingja. Stofnaðir eru nýir bankar, ekki á rústum hinna, húsin stóðu eftir. Núna þegar fólk fer í banka og biður um skilning eða niðurfellingu á lánum, mætir því maður sem er með sama hárgelið, hann er í sömu jakkafötunum með sama bindið, en hann segir: Þetta kemur mér ekki við, þetta er nýr banki.

Þannig er ástandið í þjóðfélagi okkar. Engum böndum hefur verið komið á bankastarfsemi í landinu. Bankarnir hegða sér eins og dýrbítur innan um lömb, nema að dýrbíturinn bítur aðeins þegar hann er svangur, bankarnir eru alltaf (Forseti hringir.) gráðugir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)