140. löggjafarþing — 8. fundur,  13. okt. 2011.

fjáraukalög 2011.

97. mál
[14:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjáraukalögin og höfum tekið umræðu um ýmislegt sem þeim tengist eðli málsins samkvæmt. Í óundirbúnum fyrirspurnum og á opnum nefndarfundi í gær vakti ég máls á málefni sem hefur farið furðuhljótt miðað við alvarleika málsins og stærð þess, það snýr að Byr og SpKef Svo að við rifjum það upp, vegna þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur farið mjög frjálslega með staðreyndir þegar hann hefur verið að ræða þessi mál — og er það því miður orðin almenn regla hjá hæstv. fjármálaráðherra — þá hefur hann talið það eðlilegasta mál að hann færi með eigendavald í þessum sparisjóðum.

Bara til að rifja upp var það nú hæstv. fjármálaráðherra sem sjálfur mælti fyrir og setti á laggirnar sérstaka stofnun, nánar tiltekið Bankasýslu ríkisins. Rök hæstv. fjármálaráðherra voru einfaldlega þau að það væri gríðarlega mikilvægt að fjármálastofnanirnar væru, eins og hann kallaði sjálfur, armslengd frá stjórnmálamönnum. Þar sem ríkið væri að fara inn í þær með eignarhluti, og vísaði þá bæði í stóru bankana og sparisjóðina, væri faglega nauðsynlegt að hafa sérstaka stofnun sem héldi utan um fjármálastofnanir og eignarhlutina þar. Þetta kemur skýrt fram í 1. gr. laga um Bankasýslu og sömuleiðis kemur það skýrt fram að ef ríkið er með eignarhluti þá skuli Bankasýslan fara með þá.

Þannig hefur það verið, virðulegi forseti, til dæmis með Landsbankann, til dæmis með stóru bankana og sparisjóðina almennt, ef undan eru skildir tveir bankar, þ.e. Byr og SpKef Það hefur verið vörn hæstv. fjármálaráðherra að meðan um fjárhagslega endurskipulagningu sé að ræða sé það hlutverk fjármálaráðherra að halda utan um hlutinn. Það segir að vísu ekki neitt um það í lögum um Bankasýsluna. Hæstv. fjármálaráðherra vísaði í að það hefði verið gert með sambærilegum hætti með Byr og SpKef og með stóru bankana, en því er til að svara að þegar fjárhagsleg endurskipulagning var í gangi þar var Bankasýsla ríkisins ekki til. Í lögum um Bankasýsluna er að vísu bráðabirgðaákvæði sem vísar til þess að — ég man að vísu ekki alveg lögin núna, það ákvæði, en í örstuttu máli er ekki hægt að finna nein ákvæði, hvorki í bráðabirgðaákvæðinu né í ákvæðinu sjálfu, um það að hæstv. fjármálaráðherra eigi að fara með eignarhlutina þó svo að um fjárhagslega endurskipulagningu sé að ræða.

Hæstv. ráðherra hefur hins vegar farið með þessa eignarhluti og kannski er kosturinn við það, að hæstv. ráðherra hefur gengið jafnfast fram og raun ber vitni í að reyna að sannfæra almenning og aðra um að hann eigi að fara með eignarhlutinn í þessum tveimur fjármálastofnunum, að það er þá skýrt í það minnsta hvar ábyrgðin liggur.

Ef ég skil hæstv. ráðherra rétt er ástæðan fyrir því að það er ekkert í fjáraukalögunum um fjárlagaheimildir fyrir SpKef, en þar hafa verið ákveðnar deilur í gangi, þ.e. við sameiningu Sparisjóðs Keflavíkur og Landsbankans, taldi Landsbankinn að eignamat Sparisjóðs Keflavíkur væri ofmetið um 30 milljarða kr. Við hljótum að vera mjög bjartsýn á að þetta hafi verið rangt hjá Landsbankanum, vegna þess að ekki er gert ráð fyrir þessu í fjáraukalögum. Hæstv. fjármálaráðherra hefur líka sagt og staðfesti það hér í morgun að ekki verði um að ræða neinar skuldbindingar eða nein fjárútlát af hálfu hins opinbera gagnvart Byr og hann staðfesti líka að þau inngrip sem hann sjálfur hefur haft í þau mál muni ekki baka ríkinu skaðabótaskyldu.

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að þessu sé til haga haldið í þessari umræðu. Ég lagði fram spurningar, 14 spurningar ef ég man rétt, á fundi viðskiptanefndar þann 18. ágúst síðastliðinn, þær bárust hæstv. ráðherra 19. ágúst. Það kom svar sem var merkt þeim spurningum í vikunni, en við nánari athugun kom í ljós að þetta var minnisblað og lýsing á því sem hafði farið fram varðandi Byr og SpKef, en það eru ekki nein svör við þeim spurningum sem þar eru lagðar fram.

Virðulegi forseti. Ég tel afskaplega mikilvægt að þessi mál verði rædd og niðurstaða fáist. Hæstv. fjármálaráðherra hefur oftar en einu sinni og oftar en tvisvar kallað þá gagnrýni sem ég hef haft uppi um málsmeðferð hæstv. ráðherra því nafni að ég sé að reyna að gera allt í kringum þetta mál tortryggilegt. Það er það sem hæstv. ráðherra hefur sagt hvað eftir annað.

Það er mjög mikilvægt að þeir sem hafa hlustað á hæstv. ráðherra, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, tala um hlutverk Alþingis og meðal annars eftirlitshlutverk, séu meðvitaðir um það hvernig hæstv. ráðherra lítur á það í raun og veru. Hæstv. ráðherra hefur til dæmis ekki svarað því hvernig það megi vera, og ég hvet hæstv. ráðherra til að gera það, að Byr sé búinn að starfa núna undir lögmætum eiginfjárhlutföllum í 18 mánuði.

Það er þannig, virðulegi forseti, fyrir þá sem ekki þekkja til, að við erum með sérstakt lagaumhverfi sem miðar að því að fjármálaumhverfi sé traust. Gagnrýnin var sú eftir bankahrunið að þetta umhverfi, þ.e. lagaumhverfið, hefði ekki verið þétt, eftirlitið hefði ekki verið nógu skýrt og ekki nógu skilvirkt, og það hefði verið ein af ástæðunum fyrir bankahruninu.

Við erum núna, virðulegi forseti, ekki að tala um það sem gerðist fyrir bankahrun. Við erum að tala um það sem hefur gerst eftir hrun, þar sem aðstæður eru allt aðrar, bankaumhverfið miklu minna, nánar tiltekið um það bil 20% af því sem var fyrir hrun. Á sama tíma hefur eftirlitskerfið eins og Fjármálaeftirlitið stækkað um 80% ef ég man rétt, virðulegi forseti, og samt sem áður erum við í þeirri stöðu, sem ég veit ekki til að hafi gerst áður, að hér starfar banki sem uppfyllir ekki þessi skilyrði. Af hverju eru skilyrði um eigið fé? Það er til að vernda viðskiptavini. Það er til að sjá til þess að stofnanirnar geti sinnt hlutverki sínu.

Á forræði hæstv. fjármálaráðherra, sem þessi banki svo sannarlega var, hefur það komið í ljós að í minnsta lagi 18 mánuði var eiginfjárhlutfall þessara banka 4–5%. Samkvæmt lögum á það að vera 8%, en samkvæmt reglum sem voru settar í tengslum við þær bankastofnanir sem fengu fyrirgreiðslu hins opinbera var gert ráð fyrir því að það þyrfti að vera 16%.

Við erum því að tala um það, virðulegi forseti, að viðkomandi stofnun var langt undir eiginfjárhlutfallinu. Á sama tíma var þessi stofnun að opna útibú og var í samkeppni við aðila sem svo sannarlega þurftu að uppfylla lögmæt skilyrði. Ég held að það skipti mjög miklu máli að menn skoði í þessu samhengi viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra því að hann telur þetta vera fullkomið aukaatriði og sér ekki nokkra einustu ástæðu til að svara því hvernig þetta geti gerst. Ég spurði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um þetta vegna þess að hann er yfirmaður Fjármálaeftirlitsins. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra benti, væntanlega réttilega, á hæstv. fjármálaráðherra. Benti á að hæstv. fjármálaráðherra bæri ábyrgð á þessu og færi með þessi mál. Það að þingmenn bendi á að ekki hafi verið farið að lögum um fjármálafyrirtæki, það kallar hæstv. fjármálaráðherra að verið sé að reyna að gera hluti tortryggilega.

Fleira má nefna í þessu samhengi, virðulegi forseti. Það er mjög margt, en ég ætla að taka hér nokkra hluti út.

Stofnaðir voru nýir bankar á grunni þeirra gömlu, eða banki og sparisjóður, og hafa ýmsar spurningar vaknað í tengslum við það. Það er áhugavert að 10 mánuðum eftir að þessi bankar eru stofnaðir — og þetta er eftir bankahrun — eru þeir komnir að fótum fram og geta ekki starfað lengur. Þá er Sparisjóður Keflavíkur sameinaður Landsbankanum og þar, eftir að vera búinn að vera í umsjá fjármálaráðherra, er farið inn á ákveðið eignasafn og eignasafnið er af Landsbankanum talið vera 30 milljörðum lægra en mat Sparisjóðs Keflavíkur er.

Miðað við orð hæstv. fjármálaráðherra er ekkert slíkt í gangi í tilfelli Byrs, en þetta hefur eðli málsins samkvæmt haft afleiðingar. Það hlýtur líka að vera ansi áleitin spurning hvaða skilaboð menn séu að gefa, ekki bara út í fjármálalífið heldur til annarra sviða. Ef við erum hér með bankastofnanir og þær eru undir forræði hæstv. fjármálaráðherra og það á bara að vera sjálfsagt og eðlilegt að þær fari ekki að lögum, að þeim leikreglum sem eru til staðar, hvaða skilaboð eru það þá til annarra aðila í þjóðfélaginu? Ég held við ættum að velta því fyrir okkur.

Virðulegi forseti. Nema hæstv. fjármálaráðherra upplýsi um eitthvað annað er, samkvæmt mínum bestu heimildum, ekki gert ráð fyrir neinum útgjöldum í tengslum við þessar tvær bankastofnanir. Það er ekki að sjá í þessum fjáraukalögum eða fjárlögum. Það er auðvitað gott ef það gengur eftir. Ég get alveg sagt hæstv. fjármálaráðherra að þeir hv. þingmenn sem hafa kynnt sér þessi mál munu ekki láta það óskoðað. Því er miklu nær að hæstv. fjármálaráðherra geri það sem hann hefur farið fram á að aðrir geri alla jafna og sinni þeim þinglegu skyldum að svara fyrirspurnum án útúrsnúninga og reyni ekki að gera lítið úr þessum alvarlegu hlutum. Því fyrr sem hæstv. ráðherra gerir það þeim mun betra. Þangað til hann gerir það verðum við hv. þingmenn að sinna eftirlitsskyldu okkar og fá botn í þessi sérstöku mál, en þau eru svo sannarlega sérstök þegar við sjáum hvernig hefur fram gengið.