140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hinni nýju nefnd Alþingis, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hafa verið falin ærin verkefni og er henni mikill vandi á höndum, kannski ekki síst fyrstu dagana á meðan hún mótar starf sitt. Vanda þarf mjög til þeirra verka og þar verður ekki hlaupið upp til handa og fóta, ég lofa þingmanninum því.

Samkvæmt verkefnaskránni eru það þrjú efni sem koma fyrir nefndina. Það eru reglubundin efni um stjórnarskrármál, málefni forseta, og viðfangsefni sem nefndin tekur upp að eigin frumkvæði og lúta að athugun hennar á ákvörðun og verklagi ráðherra á grundvelli eftirlitshlutverks þingsins. Þar verður fyrst og fremst um að ræða skýrslur sem koma frá Ríkisendurskoðun og umboðsmanni Alþingis þar sem búið er að fara ofan í mál sem þykja aðfinnsluverð og yfir þau öll munum við auðvitað fara. Við erum með níu skýrslur nú þegar frá Ríkisendurskoðun. Þar þarf að athuga það sem hv. þingmaður Siv Friðleifsdóttir kom inn á, að í þessum skýrslum sé rétt með farið, og það þarf líka að athuga hvernig fréttir eru sagðar af skýrslum eins og þessum.

Það er hárrétt að fjórðungur þingmanna í nefndinni getur farið fram á að mál verði tekin upp. Við höfum fengið erindi frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og við munum auðvitað skoða það. Ef rétt þykir að fara nánar ofan í það mál verður það gert, en eins og ég sagði verður ekki hlaupið upp til handa og fóta í nefndinni, a.m.k. ekki fyrstu dagana.