140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

ákvörðun Alcoa um álver á Bakka -- innkaup embættis ríkislögreglustjóra -- bankamál.

[13:54]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég tek til máls varðandi fréttir gærdagsins um að Alcoa hefur hætt við álver á Bakka. Ég tel að það sé góð lending í því máli. Það hefur verið vitað í allnokkuð langan tíma að orka fyrir þetta álver er ekki til. (Gripið fram í.) Það hefur lengi verið vitað að álver skapar fá störf miðað við orkuþörf. Það hefur verið vitað í allnokkurn tíma að það er mjög léleg nýting á orku að nýta jarðhita eingöngu til raforkuvinnslu, einungis 12–15% af orkunni nýtast.

Nýlega hafa komið upp vandamál varðandi jarðvarmavirkjanir eins og t.d. á Hellisheiði þar sem ýmis afbrigði hafa komið í ljós; afrennslisvatnið er mengað af blýi, kvikasilfri, arseniki o.fl. og þarf að koma því fyrir einhvers staðar með skynsamlegum hætti án þess að það mengi meira út frá sér.

Komið hefur í ljós undanfarið að jarðvarminn er ekki talinn endurnýjanlegur orkugjafi nema með mjög varfærnislegri nýtingu. Annars er það náma sem tæmist einfaldlega. Staðan á Reykjanesi er sú að mikil lækkun hefur orðið á þrýstingi í hitavatnsgeymum neðan jarðar, vatnsyfirborðið hefur lækkað mjög mikið og grunnvatnsstaða kalda vatnsins á svæðinu líka. Kaldá, sem Kaldársel heitir eftir, er horfin af yfirborði jarðar, búin að renna þarna í hundruð ára, þannig að við skulum fara varlega í nýtingu og hugsa skynsamlega og vinna skynsamlega.

Ég leyfi mér að minna á að í álverum á Íslandi í dag vinna 1.400 manns, þ.e. 0,8% af vinnuaflinu, þannig að þetta „eitthvað annað“ spjarar sig hreint ágætlega. (Gripið fram í.)