140. löggjafarþing — 11. fundur,  18. okt. 2011.

sókn í atvinnumálum.

10. mál
[16:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og tek undir orð hans þar sem hann talar um að kvikmyndagerð sé í framsókn og að það væri mjög jákvætt ef fleiri atvinnugreinar í landinu væru í framsókn, þá væri ástandið í atvinnumálum betra að mörgu leyti.

Mig langar að leiðrétta eitt hjá hv. þingmanni. Féll hann í ræðu sinni í sömu gryfju og margir fjölmiðlamenn hafa gert þegar hann talaði um þær gríðarlegu afskriftir sem verið hefðu í sjávarútveginum. Það er alveg rétt, það hafa orðið afskriftir í sjávarútvegi en hins vegar er ágætt að það komi fram að afskriftirnar hafa verið margfalt meiri í verslunar- og þjónustugeiranum. Til að mynda voru afskrifaðar 88,5 milljarðar hjá 13 fyrirtækjum innan þess geira á meðan sjávarútvegurinn afskrifaði einungis um einn áttunda af þeirri upphæð. En það var ekki það sem ég ætlaði að koma inn á í ræðu minni.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu. Hann kom inn á ýmislegt í atvinnumálum og ég tek hjartanlega undir með honum um að að sjálfsögðu eigi menn að benda á það sem gott er og kemur frá öðrum flokkum.

Eitt vakti þó athygli mína, það var þegar hv. þingmaður talaði um að stærsti vandi Íslands í dag væri gjaldmiðillinn; ef við værum með annan gjaldmiðil væri atvinnuástandið annað hér á landi. Ég lýsi mig ósammála því en hins vegar langar er ég í ágætissambandi við marga af forsvarsmönnum fyrirtækja hér á landi og finn fyrir því í vaxandi mæli að margir þar innan búðar eru farnir að horfa frá evrunni og vilja skoða einhliða upptöku á öðrum gjaldmiðlum vegna þess að þeir vilja ekki fara inn í það hagvaxtarlamandi samband sem Evrópusambandið er. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að tími sé kominn til að horfa svolítið út fyrir rammann hvað það snertir. Að lokum vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann telji ekki að eitthvað af vandanum (Forseti hringir.) í atvinnumálum sé ríkisstjórninni sem nú er við völd að kenna.