140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[11:38]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður er aðallega að vísa til skattgreiðslna úr fjármálakerfinu þá er ljóst að fjársýsluskatturinn er nýr skattur og ekkert er farið í felur með það hér að við erum að innleiða, að erlendri fyrirmynd og samkvæmt ráðleggingum sem við höfum fengið, skatt á starfsemi sem ekki hefur verið virðisaukaskattsskyld. Þetta er gert í Danmörku með nánast nákvæmlega með sama hætti, hliðstæða er í Frakklandi, norsk stjórnvöld eru nú að skoða upptöku nákvæmlega sama skatts o.s.frv. Og að sjálfsögðu greiðist hann þá úr þessum rekstri. Afkoma stóru bankanna að minnsta kosti er sem betur fer góð. Ég viðurkenni að vísu að á þeim hvíla býsna þungar álögur þessi missirin vegna þess að kostnaður við rekstur Fjármálaeftirlits og embættis umboðsmanns skuldara vegur býsna þungt sem og hlutur þeirra í (Forseti hringir.) hinni sérstöku vaxtaniðurgreiðslu en þær greiðslur munu fara lækkandi frá og með næsta ári. Og varðandi áhrifin á fjármögnun ríkissjóðs þá held ég að þau verði hverfandi vegna þess að (Forseti hringir.) sá litli óverulegi hlutur sem lífeyrissjóðir greiða í þessum efnum mun væntanlega ekki hafa nein umtalsverð áhrif á ávöxtun.