140. löggjafarþing — 17. fundur,  3. nóv. 2011.

tekjuskattur.

62. mál
[16:06]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn eru hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Þetta frumvarp snýst í stuttu máli um að tryggja sjómönnum jafnræði við aðrar stéttir á Íslandi. Það skýtur skökku við að sjómenn eru eina stéttin á Íslandi sem ekki nýtur afsláttar á skatti vegna vinnu fjarri heimilis. Þetta er til háborinnar skammar. Það er stutt síðan núverandi ríkisstjórn ákvað að afnema þann þátt sem löngum hefur verið kallaður sjómannaafsláttur en er fyrst og fremst einfaldlega réttur fyrir það að hafa stundað vinnu fjarri heimili eins og allir aðrir landsmenn sem það gera eiga rétt á.

Ef einhver stétt landsins vinnur að miklu leyti fjarri heimili þá eru það sjómenn. Reglunum þarf að breyta, þær þarf að lagfæra og því er þetta frumvarp sett fram. Til viðmiðunar eru samsvarandi reglur og hér eru lagðar til í gildi í Noregi og í Færeyjum. Sums staðar í Evrópu eru miklu hærri upphæðir metnar sem skattafsláttur en í frumvarpinu eru viðmiðunarlöndin þessar tvær nágrannaþjóðir okkar.

Rétt til sjómannaafsláttar samkvæmt frumvarpinu hafa þeir einstaklingar sem stunda sjómennsku og eru lögskráðir í skipsrúm að því tilskildu að laun þeirra fyrir sjómennsku nemi 30% af tekjuskattsstofni þeirra hið minnsta. Í frumvarpinu segir í stuttu máli að sjómannaafsláttur sjómanna á fiskiskipum skuli vera 14% af þeim hluta tekjuskattsstofns sem þeim hlotnast sem endurgjald fyrir sjómannastörf, þó að hámarki 1.360 þús. kr. Sjómannaafsláttur annarra sjómanna en sjómanna á fiskiskipum, svo sem lögskráðra sjómanna sem starfa á varðskipi, sanddæluskipi, ferju eða farskipi sem er á förum milli landa eða er í strandsiglingum innan lands, skal vera 15% af tekjuskattsstofni, þó að hámarki 863 þús. kr.

Um þetta snýst frumvarpið. Vonandi gengur það fram að sýna ekki íslenskri sjómannastétt þann yfirgang og dónaskap að tryggja ekki að þeir sitji við sama borð og aðrir landsmenn sem þurfa löngum stundum að vinna fjarri heimili sínu.