140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

barátta gegn einelti.

[13:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu samhengi nefna að í vor voru gerðar breytingar á grunnskólalögunum þar sem grunnskólum er sett að setja sér áætlun um velferð nemenda sinna og þar með talið um aðgerðir gegn einelti. Mér finnst eðlilegt að sömu kröfur séu gerðar til framhaldsskólanna, af því að hv. þingmaður nefnir þá.

Hvað varðar kennaramenntun og símenntun er það eitt af því sem við höfum á verkefnalista okkar sem unninn hefur verið út frá niðurstöðum starfshópsins, að flétta þetta inn í kennaranámið, sem hefur verið í endurskoðun eins og þekkt er, en ekki síður inn í símenntun kennara. Þessi mál þurfa stöðugt að vera uppi á borðum og að því er unnið. Núna erum við með nýjan samráðsvettvang þar sem unnið er að því að samhæfa framboð á endurmenntun, einmitt til að svona áherslum verði komið á framfæri í endurmenntun kennara. Ég lít svo á að þar sé einelti undir ásamt til að mynda nýjum námskrám og öðru sem tengist málefnum dagsins.