140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

sala Grímsstaða á Fjöllum.

[13:44]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki séð nein áform sem gefa til kynna að tekjuflæði verði sérstaklega inn í ríkissjóð vegna þessarar óskar. Það eru mjög deildar meiningar um þetta mál. Hv. þingmaður vísar til þess að margir hafi komið að máli við sig og hann hafi heyrt raddir um þetta í fjölmiðlum. Það hef ég líka gert og mjög margir komið að máli við mig að sjálfsögðu.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að sporin hræða. Við þekkjum ýmsa loftkastalasmiði frá fyrri árum og ég hélt nú að Íslendingar vildu stíga varlega til jarðar þegar menn með dollaramerki í augunum eða mikla fjármuni á milli handa, meinta fjármuni, eru hér á sveimi. Við tökum þann tíma sem við þurfum. Það er vissulega áhyggjuefni í ráðuneyti mínu hve seint gengur að svara ýmsum erindum. (Forseti hringir.) Þar hef ég áhyggjur af fólki, einstaklingum sem leita úrskurðar vegna mannréttindamála, forræðisdeilna og dvalarleyfa fyrir útlendinga. Þetta eru mannréttindi sem snúa að einstaklingnum og er ekki síður ástæða til að hafa áhyggjur af.