140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

eftirlit með símhlerunum.

[13:57]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé tvennt sem við verðum að gera núna: Við þurfum að fá það upp á borðið hvernig eftirlitinu hefur verið sinnt. Ég er hræddur um að það hafi verið miklar brotalamir á því að menn hafi verið upplýstir um að þessum rannsóknarúrræðum hafi verið beitt eftir að rannsóknarhagsmunir kröfðust þess ekki lengur og að því hafi verið haldið leyndu fyrir viðkomandi.

Við þurfum því annars vegar að fá það á hreint hvernig eftirlitinu hefur verið sinnt, hvaða afleiðingar það hefur haft að fjárskortur hafi verið hjá embættinu. Hins vegar þurfum við að taka það til umfjöllunar hvort þær reglur sem við innleiddum tilölulega nýlega um þessi efni þurfi að koma nú til endurskoðunar, til dæmis hugmyndin um að skipa sérstakan talsmann þeirra sem aðgerðirnar beinast að, hvort það væri góð viðbót við þær reglur sem nú þegar er að finna í lögum um þessi efni. (Forseti hringir.) Um það hafa komið fram ábendingar frá prófessorum, hæstaréttarlögmönnum og öðrum sem láta sig þessi mál varða.