140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:38]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna og þær tillögur sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur hér fram. Hér er margt ágætt á ferð, t.d. endurgreiðsla tryggingagjalds til þeirra fyrirtækja sem ráða fólk af atvinnuleysisskrá svo eitthvað sé nefnt. Hins vegar ber þetta keim af kosningaplaggi hjá Sjálfstæðisflokknum sem er eilítið veikleikamerki, enda finnst mér hér of mikil áhersla lögð á að hægt sé að eyða fjármunum okkar í þá átt að örva hér atvinnulífið. Hins vegar tel ég að með þeim hætti sé verið að setja stöðu ríkissjóðs til skemmri tíma í uppnám.

Við sjáum hins vegar þær ofuráherslur sem hér eru lagðar á skattalækkanir. Ég get svo sem alveg tekið undir margt af því sem þar kemur fram, en við sjáum hins vegar að í þeim þjóðfélögum sem farnast hvað best um þessar mundir, t.d. Svíþjóð og Þýskalandi, er áherslan lögð á öflugt velferðarkerfi. Þar telja menn að menntakerfið beri uppi hagvöxt framtíðarinnar og þess vegna vilja menn stíga varlega til jarðar í að lækka skatta um of.

En af hverju breyttum við skattkerfinu? Það var til þess að forða (Forseti hringir.) ríkinu frá tekjufalli, enda hrundu hér veltuskattarnir á árunum eftir hrun.