140. löggjafarþing — 19. fundur,  9. nóv. 2011.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langaði að eiga hér orðastað við hv. þm. Helga Hjörvar varðandi fasteignamarkaðinn. Ég hef áhuga á að ræða meðal annars fréttir sem voru um daginn, sérstaklega í þættinum Ísland í dag fyrir u.þ.b. viku síðan þar sem rætt var við sérfræðinga um húsnæðismarkaðinn og einn af yfirmönnum greiningardeildar bankanna. Þar kom fram að sérfræðingarnir telja að fasteignabólan sé jafnvel enn þá ósprungin, að innstæða sé fyrir 20–30% lækkun á fasteignaverði á næstu þrem til fjórum árum í umhverfi þar sem verðbólgan hefur hækkað um nærri 40% frá 1. janúar 2008.

Við hljótum að þurfa að velta því fyrir okkur, þingmenn, ekki kannski síst þeir sem stýra nefndum og aðrir sem hafa sérfræðiþekkingu á þessum málum að fara yfir þetta mál. Hvað mun það þýða ef þessir sérfræðingar hafa rétt fyrir sér?

Jafnframt kom fram í þessum þætti að æskilegra hefði verið að afskrifa meira af skuldum heimilanna til að heimilin gætu staðið undir þeim hagvexti sem þarf að vera til staðar. Undir þetta tóku í raun allir þeir álitsgjafar sem rætt var við í þættinum, þar á meðal sá yfirmaður greiningardeildar banka sem rætt var við.

Við hljótum að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort þetta sé staðfesting á því að við þurfum enn og aftur að fara að leita leiða til þess að létta á skuldum heimilanna, ekki síst vegna þess að líkur eru á, samkvæmt þessum sérfræðingum, að verði á fasteignamarkaði sé haldið uppi af bönkunum, af fjármálastofnunum. Það kom fram í þessum þætti að sérfræðingarnir töldu mjög líklegt að svo væri. Þá er málið enn alvarlegra.

Ég hlýt því að skora á hv. þingmann að taka það upp í sinni nefnd að (Forseti hringir.) þetta mál verði skoðað sérstaklega.