140. löggjafarþing — 20. fundur,  10. nóv. 2011.

beiðni um sérstaka umræðu um sparisjóði.

[11:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu sem var fyrir fundarhlé um röðina á óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra. Ég veit að forseta er vandi á höndum við að reyna að koma öllum að þegar tíminn er knappur og aðeins fimm fyrirspurnir komast að.

Ég kem hingað til að lýsa furðu minni og taka undir orð hv. formanns þingflokks Framsóknarflokksins varðandi þá sérstöku umræðu sem beðið hafði verið um af hálfu þingmanns Framsóknarflokksins um sparisjóðina. Ég geri það vegna þess að það var sérstaklega rætt á þingflokksformannafundi fyrr í vikunni. Þar kom glögglega í ljós sú áhersla sem Framsóknarflokkurinn lagði á þá umræðu. Mér þykir það furðu sæta að hæstv. ráðherra geti neitað að taka umræðu um málið þegar viðkomandi ráðherra er augljóslega í húsi, hann er á staðnum og það sem meira er, hæstv. ráðherra á sviðið í allan dag. (Forseti hringir.) Það er sú athugasemd sem ég vildi gera við fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.)