140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka fyrr undir þessum ágæta dagskrárlið til umræðu landbúnaðarskýrsluna og þær kenningar sem þar eru settar fram, þær breytingar sem við Íslendingar þyrftum að gera í landbúnaðarmálunum við aðild að Evrópusambandinu. Ég held að margt sé nýtilegt í þessari skýrslu til málefnalegrar umræðu um Evrópusambandið og aðild að því og ekki síst landbúnaðarmálin þar sem umræðan hefur oft einkennst af upphrópunum og hræðsluáróðri.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson spurði hvort við í Samfylkingunni teldum koma til álita að auka beinan stuðning við bændur, eins og það væri af okkar hálfu fráleitt. Það er auðvitað alls ekki svo. Við höfum aldrei rætt um það sem markmið í sjálfu sér að skerða afkomu íslenskra bænda. Þvert á móti höfum við rætt um það með hvaða hætti megi haga stuðningi við íslenskan landbúnað þannig að hann sé arðvænlegri fyrir þá sem hann stunda og skili neytendum lægra vöruverði. Ef það er best gert með því að draga úr tollvernd og lækka þannig matvöruverðið en auka á móti beina styrki til bænda í landinu þannig að saman fari hagsmunir bænda og neytenda er það einfaldlega ávinningur fyrir alla aðila máls og nokkuð sem við mundum að sjálfsögðu styðja með ráðum og dáð. Það gæti verið einn af þeim mörgu mikilvægu framfaraþáttum sem fylgdu aðild að Evrópusambandinu, ekki bara fyrir okkur á höfuðborgarsvæðinu heldur um land allt.