140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs.

106. mál
[18:41]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. framsögumanni og tillöguflytjanda fína framsögu og raunar það frumkvæði að leggja fram þetta mjög svo ánægjulega og áhugaverða mál. Ég ætla að hafa um þetta örfá orð til þess að lengja ekki fundinn. Fyrir það fyrsta lýsi ég mikilli ánægju með málið og minni á mikilvægi þess að halda forsögu þess til haga eins og þingmaðurinn raunar gerði afar vel í framsögu sinni. Þarna er um að ræða hluta af tillögu um Vatnajökulsþjóðgarð. Á sínum tíma var sú tillaga hlutuð í sundur í samningaviðræðum í þinglok eitt árið þar sem tillögu þáverandi hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um jöklaþjóðgarða fjögurra jökla var breytt þannig að þrír voru skildir eftir og einn fluttur áfram í tillögu sem sammælst var um að samþykkja á þingi.

Við þekkjum þá sögu að Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið mikið gæfuspor fyrir náttúruvernd og fyrir þá óumdeilanlegu sérstöðu Íslands að því er varðar náttúrufar á heimsvísu. Þarna getum við stillt saman kröfur um náttúruvernd og um leið möguleika á aðkomu almennings.

Mig langar að nefna þau svæði sem eru í raun og veru undir, þ.e. þessi aðliggjandi svæði sem er fjallað um í greinargerðinni, því að samkvæmt síðustu náttúruverndaráætlun tók Alþingi ákvörðun um að stækka friðlandið í Þjórsárverum. Unnið hefur verið að stækkun friðlandsins þar og hjá nefndinni sem vann með stækkun friðlandsins kom fram sú hugmynd að hafa Hofsjökul allan með og tengja þannig Þjórsárverasvæðið við friðlandið í Guðlaugstungum. Það má segja að sú vinna sem hefur verið í gangi innan ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar hafi miðað að því að byggja upp, getum við kannski sagt, minnstu gerð af Hofsjökulsþjóðgarði sem eru Þjórsárver, jökullinn og síðan Guðlaugstungur til norðvesturs. Þau sveitarfélög sem eiga land að Hofsjökli norðan megin hafa tekið mjög jákvætt í þessa stækkunarhugmynd friðlandsins í Þjórsárverum en hins vegar hefur verið ágreiningur að því er varðar stækkun friðlandsins til suðurs við sveitarfélög þar vegna gamalla væntinga, má segja, um virkjanaáform á því svæði.

Þetta svæði, eins og kom fram í máli tillöguflytjanda, er að mestu leyti þjóðlenda, raunar alveg frá Mýrdalsjökli og norður að Hofsjökli. Þarna er því stórt svæði í eigu þjóðarinnar. Þetta þríhliða samtal sem yfirleitt er í gangi þegar um er að ræða áform um friðlýsingu, þ.e. milli ríkisvalds, sveitarfélags og landeigenda, er einfaldara hvað það varðar af því að landeigendurnir erum við sjálf.

Kerlingarfjöll eru nú þegar á náttúruminjaskrá og það fer auðvitað mjög vel á því að taka þau með inn í þessa heildarmynd. Ég held að það séu engar ýkjur að svæðið sé algjörlega einstakt á heimsvísu, þarna er óvenjulega stórbrotið og óvenjulega litríkt landslag og mjög vinsælt útivistarsvæði. Þessi svæði hafa samkvæmt drögum að tillögu til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu, þ.e. rammaáætlun, verið sett í verndarflokk, þ.e. Kerlingarfjöll þar sem virkjunarmöguleikar eru taldir vera við Hverabotn, Neðri-Hveradali og Kisubotna og kæmi til greina að þeir yrðu allir settir í verndarflokk. Ætla mætti að ekki væri ágreiningur um það að eðlilegt skref væri að taka þessi svæði frá til framtíðar.

Ég vil líka nefna jökulárnar í Skagafirði í þessu samhengi vegna þess að þær hafa oft komið til umræðu varðandi friðlýsingar og mögulega náttúruvernd. Þær eru í biðflokki samkvæmt tillögunni eins og hún kemur frá verkefnisstjórninni þannig að eins og tillagan er lögð upp er þarna að mörgu leyti mjög mikið sóknarfæri. Ég fagna tillögunni og almennt þeim anda sem hefur ríkt í þinginu gagnvart þjóðgarðahugmyndum og friðlýsingarhugmyndum. Ég held að vaxandi skilningur sé á því að það fari saman að horfa til framtíðar, uppbyggingar og þróunar á atvinnulífi og ferðaþjónustu og annarra slíkra þátta. Það fer ágætlega arm í arm við metnaðarfulla náttúruvernd. Ekki síður höfum við ákveðnar skyldur samkvæmt samningnum um líffræðilega fjölbreytni, okkur ber að gæta að lifandi náttúru og jarðminjum samkvæmt alþjóðlegum samningum. Þannig er það og ef það fer saman við það að gæta þessara þátta í íslenskri náttúru og um leið að hefja hana upp með því að stofna til þjóðgarða sem auka kynningu, fræðslu og aðkomu almennings og ferðamanna og skapar ekki síst fjölbreytta atvinnu um landið byggða á fjölbreyttri og fjölþættri menntun, rannsóknum og kynningarstarfi. Ég held að það séu mikil gæfuspor að opna augu fleiri fyrir því. Ég fagna því sérstaklega, eins og ég segi, að þessi umræða hefur þróast meira út í að vera miðlæg í pólitískri umræðu en áður. Hún hefur haft tilhneigingu til að verða jaðarumræða í gegnum tíðina en ég held að það sé rétt að náttúruvernd sé sáttamálaflokkur. Þar er þessi tillaga hv. þingmanns í hópi fleiri góðra þingmanna afar góð viðbót.