140. löggjafarþing — 25. fundur,  17. nóv. 2011.

framtíð sparisjóðakerfisins.

[11:17]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Uppbygging sparisjóðakerfisins er hluti af þeirri endurnýjun sem fram þarf að fara til að hér verði til samfélag byggt á hagsmunum almennings. Sparisjóðir eiga rétt á sér þar sem þeir eru ekki drifnir af hagnaðarvon fyrir eigendur sína, heldur af samfélagsmarkmiðum eins og valddreifingu og eflingu nærsamfélaga. Auk þess eiga sparisjóðir að vera áhættuminni en viðskiptabankar þar sem starfsemi þeirra takmarkast við inn- og útlán en ekki fjárfestingarstarfsemi. Eftir útrásartímabilið ríkir óvissa um framtíð sparisjóðakerfisins. Kostnaður okkar skattgreiðenda af ráni sérhagsmunahópa á sparisjóðum er nú að birtast og ljóst að hann hleypur á tugum milljarða. Nauðsynlegt verður að sameina núverandi sparisjóði til þess að þeir geti sinnt þörfum lítilla og meðalstórra samfélaga og fyrirtækja, og til að þeir geti uppfyllt kröfur sem gerðar eru til fjármálastofnana af slíku tagi.

Frú forseti. Ég óttast hins vegar að bankakerfið sem hrundi verði endurreist án sparisjóðakerfisins til að tryggja rekstrargrundvöll allt of stórra viðskiptabanka. Full innstæðutrygging er þung byrði á ríkissjóði og markmið endurreisnar bankakerfisins hefur því verið að lágmarka kostnað ríkissjóðs af innstæðutryggingunni með einkavæðingu í stað þess að tryggja endurreist bankakerfi sem er sjálfbært og í samræmi við þarfir almennings.

Frú forseti. Gera verður sparisjóðunum kleift að keppa við viðskiptabankana um viðskiptavini sem margir hverjir hafa verið neyddir inn í banka í eigu vogunarsjóða með uppkaupum á eignum (Forseti hringir.) sparisjóðanna. Afnám stimpilgjalda er ein leið til þess.