140. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2011.

sjúkratryggingar og lyfjalög.

256. mál
[14:56]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 139. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarp það sem lagt var fram á síðasta þingi hefur nú verið endurskoðað og gerðar á því nokkrar breytingar, m.a. með tilliti til umsagna sem bárust heilbrigðisnefnd Alþingis.

Áður en ég geri grein fyrir einstökum breytingum á efnisþáttum frumvarpsins ætla ég að segja í stuttu máli frá kjarna þessa máls, meginmarkmiði frumvarpsins og hvaða breytingar það mun hafa í för með sér verði það að lögum.

Það er grundvallaratriði að frumvarpinu er ekki ætlað að leiða til sparnaðar í sjálfu sér. Meginmarkmiðið er að taka upp kerfi sem er einfaldara og réttlátara en nú gildir, kerfi sem eykur jöfnuð, mismunar ekki sjúklingum eftir því hvaða sjúkdóma þeir glíma við og ver þá sem mest þurfa á lyfjum að halda fyrir háum kostnaði. Gangi áformaðar breytingar eftir munu flestir verða varir við þær, en ekki á sama hátt. Þeir sem oft eru veikir, nota lyf að staðaldri eða þurfa tímabundið á mjög dýrum lyfjum að halda munu greiða minna fyrir lyfin en áður. Þeir sem alla jafna þurfa lítið á lyfjum að halda munu greiða meira en þeir hafa gert hingað til.

Nefna má raunveruleg dæmi um útgjöld öryrkja sem nú greiðir um 170 þús. kr. á ári fyrir lyf. Í nýju kerfi mundi þessi sjúklingur greiða 45 þús. kr. á ári, þ.e. 125 þús. kr. minna en núna fyrir sömu lyfjanotkun. Það munar um minna.

Fjárhæðir sem ég nefndi hér eru samkvæmt reglugerðardrögum sem fylgja frumvarpinu og eru reiknaðar út frá magn- og kostnaðartölum ársins 2010. Með nýja kerfinu er gert ráð fyrir að sjúkratryggðir greiði lyfjakostnað að fullu upp að ákveðnu þaki. Þegar þakinu er náð tekur við stighækkandi þátttaka sjúkratrygginga í lyfjakostnaði hins sjúkratryggða, þ.e. greiðsluþátttaka sjúkratryggðs fer stiglækkandi eftir því sem lyfjakostnaður hans eykst á 12 mánaða tímabili eins og hér er lýst. Almennt greiðir fólk að fullu fyrir lyfin sem keypt eru á 12 mánaða tímabili fari samanlagður kostnaður ekki yfir 22.500 kr. Hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, börnum og þeim sem eru á atvinnuleysisskrá er hámarkið lægra, um 15 þús. kr. Kaupi fólk lyf í apóteki eftir að þessum hámarksfjárhæðum er náð greiðir það einungis 15% af verði þeirra á móti 85% niðurgreiðslu sjúkratrygginga.

Í næsta þrepi greiðir fólk aðeins 7,5% af verði lyfs. Þegar hámarkskostnaði er náð og fólk fær lyfjaskírteini greiðir það ekkert fyrir þau lyf sem keypt eru á umræddu viðmiðunartímabili.

Í frumvarpinu er kveðið á um heimild lækna til að sækja um lyfjaskírteini fyrir sjúklinga sína við aðstæður sem eru sérstaklega tilgreindar í meðfylgjandi reglugerðardrögum. Almennt gildir þá að eftir að sjúklingur hefur greitt að hámarki 64.875 kr. vegna lyfja greiðir hann ekkert fyrir lyf umfram þann kostnað innan 12 mánaða tímabils. Hámarkið hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, börnum og atvinnulausum með lyfjaskírteini eru 45 þús. kr. Kerfið er þannig uppbyggt að mikill minni hluti sjúklinga nær þessu hámarki á 12 mánaða tímabilinu. Þetta er vegna þess að eftir að fyrrnefndu greiðsluþaki er náð greiða sjúkratryggingar svo hátt hlutfall af lyfjaverðinu. Þegar sjúklingurinn hefur greitt upp í 64.875 kr. hámarkið er samanlagður lyfjakostnaður hans og sjúkratrygginga orðinn 520 þús. kr., en hjá einstaklingi með 45 þús. kr. hámarkið er samsvarandi tala 370 þús. kr. á ári.

Það er hins vegar þessi minni hluti sjúklinga sem við viljum verja fyrir of háum kostnaði sem þeir verða fyrir í óbreyttu kerfi. Ég vil að það komi skýrt fram að allur þorri sjúklinga sem nær tilgreindu kostnaðarhámarki mun fá lyfjaskírteini þegar um þau er sótt hratt og örugglega, enda verður afgreiðsla þeirra rafræn. Því kunna einhverjir að segja að eðlilegra væri að slík skírteini væru gefin út sjálfkrafa án umsóknar þegar hámarkinu væri náð. Við hefðum vissulega getað farið þá leið, en gerum það ekki af ástæðum sem eru vel ígrundaðar og með skýr markmið að leiðarljósi.

Eins og margir hv. þingmenn vita er fjöllyfjanotkun þekkt vandamál hér á landi, þ.e. þegar sjúklingar nota mörg lyf samtímis með tilheyrandi hættu á óheppilegum milliverkunum. Oft leiðir skoðun í ljós að hægt er að fækka lyfjum hjá sjúklingum, jafnvel þannig að þeir hafa af því verulegan heilsufarslegan ávinning. Með ákvæði um að sækja þurfi um lyfjaskírteini gefst kostur á að fara yfir fjöllyfjanotkun hjá sjúklingum þegar um slíkt er að ræða áður en lyfjaskírteini er gefið út. Þá verður skoðað í samráði við lækni viðkomandi hvort og þá hvaða breytingar megi gera með hagsmuni sjúklingsins að leiðarljósi. Fyrirsjáanlegur ávinningur af þessu fyrirkomulagi er því tvíþættur þar sem því fylgir heilsufarslegur ávinningur að draga úr fjöllyfjanotkun jafnframt því sem fjármunir munu sparast með minni lyfjanotkun.

Hæstv. forseti. Ég fer nú yfir einstaka efnisþætti frumvarpsins og þær breytingar sem gerðar hafa verið frá því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi.

Helsta breytingin er sú að sett hefur verið inn nýtt ákvæði sem kveður á um að Sjúkratryggingum Íslands sé heimilt að reka sérstakan lyfjagreiðslugrunn, en ákvæðið er sett inn samkvæmt ábendingu Persónuverndar. Einnig er kveðið á um breytingar á lyfjalögum sem feli í sér aukinn aðgang að lyfjagagnagrunni til að stuðla að virkara eftirliti, m.a. með lyfjanotkun sjúklinga og lyfjaávísunum lækna.

Til að koma til móts við umsagnir og gera 1. gr. skýrari er nú kveðið á um að gjald fyrir lyf skuli vera lægra hjá öldruðum, öryrkjum og börnum og tilgreint er að gjald fyrir lyf verði hlutfallsgjald og þrepaskipt eftir uppsöfnuðum lyfjakostnaði sjúkratryggðs á tilteknu tímabili. Enn fremur er gert ráð fyrir því í drögum að reglugerð að fjárhæðir verði endurskoðaðar árlega til að hlutfall kostnaðar milli sjúklinga og greiðsluþátttaka sjúkratrygginga haldist að mestu óbreytt á milli ára.

Þá munu S-merkt lyf ekki falla undir nýtt greiðsluþátttökukerfi eins og gert var ráð fyrir í fyrra frumvarpi, en nokkrir umsagnaraðilar höfðu lýst yfir áhyggjum af því að dýr og vandmeðfarin lyf, sem má segja að tilheyri þjónustu sjúkrahúsa, féllu undir nýtt greiðsluþátttökukerfi væru þau notuð utan sjúkrahúsa.

Í gildandi kerfi miðast greiðsluþátttakan við hverja einstaka lyfjaávísun þar sem sjúkratryggður einstaklingur greiðir ákveðið hlutfall kostnaðarins. Ekkert hámark er á heildarlyfjakostnaði sjúkratryggðra sem getur því orðið mjög hár. Kerfið er einnig flókið þar sem greiðsluþátttaka er mismikil eftir því hvaða lyfjaflokk er um að ræða. Það verður því að segjast sem er að fáir, en um leið of margir, sjúklingar greiða háar upphæðir á hverju ári vegna lyfjakostnaðar þar sem núverandi greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga ver þá ekki nægilega. Það er þetta sem við viljum breyta.

Lyfjakostnaður sjúklinga ræðst af tegund og fjölda lyfja sem þeir taka og getur verið mjög mismunandi eftir sjúkdómum. Lyf við vissum sjúkdómum eru niðurgreidd að fullu en lyf við öðrum sjúkdómum lítið eða jafnvel ekkert niðurgreidd af sjúkratryggingum. Í þessu felst að núverandi greiðsluþátttökukerfi mismunar sjúklingum eftir því hvaða sjúkdómur hrjáir þá.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í upphafi er tilgangurinn og markmið nýs greiðsluþátttökukerfis að útbúa réttlátara kerfi sem ver sjúklinga betur fyrir háum útgjöldum vegna lyfja en núverandi greiðsluþátttökukerfi gerir.

Ég ætla nú að lýsa í megindráttum áformuðum breytingum. Breyttu greiðsluþátttökukerfi er ætlað að jafna greiðsluþátttöku milli sjúkratryggðra með því að fella í einn flokk öll lyf sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða. Þannig verður stuðlað að jafnræði milli sjúkratryggðra óháð sjúkdómum sem og hagkvæmari lyfjanotkun þar sem sjúkratryggðir munu hafa beinan hag af því að velja lyf á hagkvæmu verði. Nýtt kerfi mun ekki hafa í för með sér sparnað fyrir ríkissjóð eins og áður hefur verið sagt heldur er um að ræða tilfærslu og breytingar á núverandi kerfi í þágu þeirra sem mest greiða fyrir lyf, ásamt því að einfalda og auka gagnsæi greiðsluþátttökukerfisins.

Til að bregðast við háum upphafsgreiðslum í einstaka tilfellum verður boðið upp á greiðsludreifingu með svipuðum hætti og gert hefur verið annars staðar á Norðurlöndunum. Þá kemur til greina að minnka það magn lyfja sem afgreitt er hverju sinni. Einnig má nefna styrktarmöguleika fyrir þá tekjulægstu samanber reglugerð um endurgreiðslu á umtalsverðum útgjöldum sjúkratryggðra vegna læknishjálpar, lyfja og þjálfunar, nr. 355/2005, og reglugerð um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, nr. 1052/2009.

Öryrkjabandalagið hefur bent á að uppfæra þurfi viðmiðunarfjárhæðir í reglugerðinni frá árinu 2005 og bendir á að þær séu allt of lágar. Unnið er að því að mæta þeirri ósk í velferðarráðuneytinu þó að ekki liggi fyrir með hvaða hætti.

Þá má nefna að komið er betur til móts við barnafjölskyldur með því að börn undir 18 ára aldri með sama fjölskyldunúmer samkvæmt skilgreiningu þjóðskrár skuli teljast sem einn einstaklingur. Lyf sem sjúkratryggingar taka ekki þátt í að greiða verða áfram án greiðsluþátttöku. Þó er gert ráð fyrir að sýklalyfjum verði bætt inn í greiðsluþátttökukerfið sem einnig kemur sér vel fyrir barnafjölskyldur.

Í breyttu kerfi verður greiðsluþátttaka ekki mismikil eftir lyfjaflokkum eins og verið hefur heldur falla lyfin að meginstefnu til öll undir sömu reglur, þ.e. í sama flokk. Þetta þýðir færri greiðslumerkingar, tvær í stað fimm, og sjúkratryggingar taka annaðhvort þátt í greiðslu tiltekinna lyfja eða ekki.

Gert er ráð fyrir að það fyrirkomulag að sjúkratryggingar taki almennt einungis þátt í greiðslu hagkvæmustu pakkninga í ákveðnum lyfjaflokkum haldist óbreytt enn um sinn, enda hefur það fyrirkomulag sparað verulega fjármuni undanfarin tvö ár.

Eins og fram hefur komið er miðað við að læknir sæki um lyfjaskírteini fyrir sjúkling sinn þegar hámarksgreiðslu á 12 mánaða tímabili er náð. Í tengslum við útgáfu lyfjaskírteina gefst tækifæri til að fara yfir fjöllyfjanotkun, eins og áður sagði, hafa samband við viðkomandi lækni og óska eftir leiðréttingu sé tilefni til þess.

Einnig er kveðið á um það í þessu frumvarpi að Sjúkratryggingar Íslands fái aðgang að lyfjaupplýsingum úr lyfjagagnagrunni landlæknis í samræmi við eftirlitshlutverk sitt. Búast má við að stór hluti skírteinaútgáfu verði vegna sjúkratryggðra í langtímalyfjameðferð sem náð hafa hámarksþrepi í greiðsluþátttökukerfinu. Að öðru leyti verður fyrirkomulag lyfjaskírteinaútgáfunnar að mestu óbreytt. Þó munu bætast við skírteini vegna geðrofslyfja til einstaklinga með geðklofa.

Forsendur fyrir nýju greiðsluþátttökukerfi eru að Sjúkratryggingar Íslands haldi utan um greiðslustöðu sjúkratryggðra og að upplýsingar um greiðslustöðu þeirra liggi fyrir við afgreiðslu lyfseðla í lyfjabúðum. Stofnunin þarf að halda rafræna gagnagrunna yfir þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að reikna út greiðsluþátttöku sjúkratrygginga og gjald sjúkratryggðs við kaup á lyfjum. Aðlaga þarf hugbúnaðarlausnir þessum breytingum og tryggja að þær séu í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd.

Breytingar á aðgangi Sjúkratrygginga Íslands, lækna og einstaklinga að upplýsingum úr lyfjagagnagrunni landlæknis sem kveðið er á um í frumvarpi þessu eru aðkallandi. Gert er ráð fyrir að læknir fái aðgang að lyfjaupplýsingum einstakra sjúklinga til að geta rakið lyfjasögu þeirra í þeim tilgangi að auka öryggi, bæta meðferð og sporna við fjöllyfjanotkun.

Einnig er gert ráð fyrir að einstaklingar fái aðgang að lyfjaupplýsingum sínum. Með greiðu aðgengi einstaklinga að eigin lyfjaupplýsingum má minnka hættuna á mistökum við lyfjatöku og lyfjakaup.

Allur aðgangur að lyfjagrunninum verður veittur samkvæmt skýrum vinnureglum landlæknis og undir hans eftirliti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2012, en vegna þess tíma sem áætlaður er fyrir kynningar á fyrirhuguðum breytingum og vegna vinnu við nauðsynlegar breytingar á hugbúnaði er gert ráð fyrir að hið nýja greiðsluþátttökukerfi verði komið í gagnið sex mánuðum eftir gildistöku laganna.

Með frumvarpinu liggja drög að reglugerð um hið nýja greiðsluþátttökukerfi lyfja. Greiðsluþak í lögunum er miðað við magn og kostnaðartölur síðasta árs. Þegar lögin taka gildi verður nauðsynlegt að miða greiðsluþak við fjárlög og nýjustu rauntölur.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og treysti því að það fái verðuga og málefnalega umfjöllun. Eins og ég sagði í upphafi er með þessu lagt til einfaldara og réttlátara kerfi sem eykur jöfnuð, mismunar ekki sjúklingum eftir sjúkdómum og bætir stöðu þeirra sem þurfa vegna veikinda sinna mest á lyfjum að halda en bera þyngstu byrðarnar í núgildandi kerfi. Við hljótum öll að vilja breyta því í þessa veru.

Leyfi ég mér því, hæstv. forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og til 2. umr.