140. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2011.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil halda áfram þeirri umræðu sem hér er hafin um þingsályktunartillögu sem formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, lagði fram í gær. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns, tillagan var rædd á fundi formanna þingflokka í gær þar sem ég óskaði eftir því að við fyndum sameiginlega farveg til að taka þetta mál til meðferðar og afgreiðslu á Alþingi hið allra fyrsta. Ég held að við ættum að gera það og leggja okkur fram um það. Eins og hér hefur verið rakið eru mjög málefnalegar ástæður fyrir því að þetta mál fái afgreiðslu.

Aðalmálið sem við ættum að vera að ræða hér er að það er augljóst, og í mínum huga hef ég fullvissu fyrir því, að fyrir þessari þingsályktunartillögu er meiri hluti á þinginu. Af samtölum mínum við þingmenn tel ég mig geta fullyrt að hér sé kominn nýr meiri hluti á Alþingi og þá vil ég biðla til stjórnarflokkanna, og eftir að hafa hlustað á viðtal við hæstv. forsætisráðherra í útvarpinu í morgun biðla til hennar, um að leggja okkur lið í þessari baráttu. Það sem verið er að fara fram á er að þetta mál komist á dagskrá, við finnum í sameiningu farveg sem við getum verið sátt við að þetta fari í og afgreiðist núna fyrir jól, milli jóla og nýárs eða strax í upphafi janúar. Þó tel ég að áramótin séu dagsetning sem við ættum ekki að fara yfir.

Ég kalla eftir (Forseti hringir.) samvinnu um þetta mál og ég tel að ef vilji er fyrir hendi og pólitíkin tekin út úr þessu máli ætti okkur að takast það.