140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður flutti efnismikla og málefnalega ræðu og vék að ýmsum þáttum. Aðeins eitt varðandi Teigsskóg; hv. þingmaður ráðleggur mér að fylgjast vel með hæstv. umhverfisráðherra en ég held að það þurfi að fylgjast með fleiri ráðherrum í því efni og þar með innanríkisráðherranum vegna þess að frá mínum sjónarhóli séð eru tveir valkostir út úr myndinni: Það er Teigsskógur og það eru hálsarnir. Þeir eru út úr myndinni af ólíkum ástæðum en ég lít svo á að aðrir valkostir séu mögulegir. Það er að sjálfsögðu gangagerðin, við ætlum að fara í rannsókn á því að gera göng undir hálsana, en síðan er það þverun fjarða sem við ætlum að skoða.

Ég hef sjálfur verið gagnrýninn á þverun fjarða og tel að við þurfum að vera mjög gætin hvað það snertir. Hins vegar hafa þar átt sér stað miklar breytingar. Ég tel að sú áherslubreyting að fara með þverun utar í firði í stað þess að fara í leirurnar sé miklu skaðminni aðferð en áður var tíðkuð.

Varðandi útgjöld til tengiveganna, m.a. vegna malbiks, var vikið að því í umræðunni áðan að hagkvæmasta leiðin til að bæta vegasamgöngur er að setja fjármagn í þær. Vegagerðin hefur lagt mjög ríka áherslu á þetta og hefði viljað hafa þennan lið hærri, ekki hálfan milljarð heldur milljarð, það var tillaga Vegagerðarinnar. En skipting fjárins er í samræmi við það sem hv. þingmaður nefndi. Hér segir, með leyfi forseta:

„Lagt er til að skipting fjárins varði til lengd tengivega, árbundins slitlags og umferð á hverju svæði Vegagerðarinnar. Samkvæmt tillögunni er skipting fjárins á milli svæða eftirfarandi …“ Og síðan er það talið upp.

Ég er búinn með tíma minn (Forseti hringir.) en hér kemur fram að næstum því helmingur, 44,4%, fer á norðaustursvæðið.