140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

innflutningur dýra.

134. mál
[16:28]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að rífa þetta mál upp úr hjólförum stuðnings eða andstöðu við Evrópusambandið. Hundar og kettir eiga betra skilið en að menn fari í hund og kött yfir þeim út frá afstöðu sinni til þess ríkjasambands. Það fyrirkomulag sem við erum að tala um er auðvitað til víðar. Ég held til dæmis að ég geti lofað hv. þingmanni því að í Bandaríkjum Norður-Ameríku séu menn ekki stoppaðir á mörkum fylkja og látnir setja hunda sína og ketti í einangrun. Það kæmi mér að minnsta kosti mjög á óvart ef svo væri.

Á ekki að hlusta á varnaðarorð?, spyr hv. þingmaður. Auðvitað á að hlusta á varnaðarorð, en grundvallaratriðið í að meta áhættu er auðvitað að skoða þau áhættumöt sem hafa farið fram og þær tölfræðilegu upplýsingar sem liggja þar fyrir. Sú áhætta sem felst í einu smituðu dýri af hverjum 9,8 milljón komum til landsins er náttúrlega hverfandi. Við heimilum fjölmargt annað sem felur í sér miklu meiri áhættu en það.

Þetta er býsna sérkennileg afstaða sem við höfum oft haft í þessu efni. Ég held að það eigi að vera okkur umhugsunarefni að leggja þennan mikla kostnað á fólk, því að fólk sem er í námi erlendis eða fer út að vinna í eitt ár og ætlar að koma aftur heim, stendur frammi fyrir mörg hundruð þúsund króna kostnaði við að halda gæludýrinu sínu. Hvað á það að þýða? Ekki eru allir efnamenn sem fara að vinna eða nema í útlöndum og ætla að koma heim.

Við skulum hugsa um það að það eru bara 23–24 ár síðan við sögðum þessu fólki að það skyldi bara lóga dýrunum sínum ef það ætlaði að leyfa sér að koma aftur heim til Íslands af því að þetta væri svo hreint og tært land að það væri ekki velkomið með dýrin sín og það skyldi bara skjóta þau (Forseti hringir.) áður en það kæmi heim. Gefur það okkur ekki tilefni til að hugsa hvort við höfum ekki verið of sér á báti í þessum efnum?