140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

rannsókn á Icesave og einkavæðingu banka.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því mjög að hv. þm. Bjarni Benediktsson taki undir með okkur um að einkavæðing Búnaðarbankans og Landsbankans verði tekin til sérstakrar rannsóknar. Það hefði auðvitað átt að ganga í það verk fyrir löngu og var reyndar flutt um það tillaga á síðasta þingi sem ekki fékkst afgreidd. Það er langt síðan þeir voru einkavæddir, þessir ríkisbankar, 2003 eða 2004, og hefði átt að rannsaka þetta fyrir löngu. Ég vona að um það geti orðið breið samstaða á þingi, þótt seint sé, að rannsaka þessa banka.

Þessi ríkisstjórn starfar í anda þess að það sé gegnsæ og opin stjórnsýsla. (Gripið fram í: … Já, já.) Ég hef ekkert á móti því að farið verði í rannsókn bæði á Icesave-málinu sem hér er nefnt og endurskipulagningu á bönkunum þannig að það liggi alveg ljóst fyrir. (Gripið fram í: … á hverju?) Hitt er önnur spurning hvort ekki þurfi að ljúka endurskipulagningu á fyrirtækjum sérstaklega og einstaklingunum áður en ráðist verður í þá rannsókn.

Hv. þingmaður talar um að bankarnir hafi verið afhentir kröfuhöfum. Nú skulum við aðeins líta á það. Hvaða valkostir voru í stöðunni? Hefði hv. þingmaður frekar viljað fara þá leið að ríkið hefði keypt alla þessa banka og lagt til þá fjármuni sem til þess hefði þurft, sem er ekki neitt smáræði? Fyrst hv. þingmaður stillir málinu upp með þeim hætti að kröfuhafarnir hafi eignast verulegan hluta í þeim bönkum, og mér fannst felast hálfgerð gagnrýni í því af hálfu þingmannsins, finnst mér að hann þurfi að upplýsa hér hvaða leiðir hann hefði viljað fara. Hefði hann viljað setja í það eins mikið fjármagn frá skattgreiðendum og ríkissjóði sem til hefði þurft til að ríkið keypti alla þessa banka?