140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

afnám verðtryggingar.

[11:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að ég hef lengi verið talsmaður þess að skoða það að afnema verðtrygginguna. Ég flutti þingmál um það að kanna kosti og galla þess að afnema hana. Lengra gekk ég ekki af því að ég taldi að menn þyrftu að gera sér ljóst hvað það þýddi, það ætti ekki bara einn, tveir og þrír að afnema verðtrygginguna án þess að menn mætu afleiðingarnar af því. Lengra hef ég ekki gengið í tillöguflutningi á Alþingi um það efni. En ég er mjög áhugasöm um að reyna að ná breiðri samstöðu um að finna leiðir til að afnema verðtrygginguna. Ég skal sannarlega vera liðsmaður í því en það þarf fleiri en þá sem hér stendur til að afnema hana, þingið þarf að skoða þetta og þingið er að því.

Síðan finnst mér að hv. þingmaður eigi að skoða vel hvað aðild að Evrópusambandinu þýðir fyrir verðtrygginguna. (Gripið fram í.) Ég bið hv. þingmann að kynna sér tillögur ASÍ þar sem fólk borgar 12% meira af ráðstöfunarfé sínu fyrir lán sín hér á landi en í Evrópulöndunum (Forseti hringir.) og borgar margfalt meiri vexti. Beinasta leiðin til að afnema verðtrygginguna og sú skynsamlegasta er að ganga í Evrópusambandið.