140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011--2022.

342. mál
[12:27]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa gagnlegu og málefnalegu umræðu. Aðeins til að koma inn í það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði hér undir lokin um fólk sem situr við meint grænt skrifborð og veit lítið í sinn haus annars vegar og hins vegar þá sem eru starfandi úti á markaðnum, þetta er náttúrlega alhæfing sem gengur ekki og er út í hött. Ég ætla mér ekki þá dul að skilja allar hinar tæknilegu víddir þeirra mála sem eru til umræðu, hef þurft að reiða mig á sérfræðinga innan ráðuneytisins og þá sem starfa við þetta á fjarskiptamarkaði. Þar hefur verið efnt til mjög góðs og náins samráðs á milli aðila til að ná sem allra bestum lausnum.

Það er til dæmis rangt sem hv. þingmaður sagði að við sem að þessum málum komum innan stjórnsýslunnar séum bundin tilteknum úrlausnum. Hv. þingmaður nefndi ljósleiðara. Þetta er alrangt. Menn setja sér markmið. Hver eru þau? Þau eru hraðinn óháð því hvernig við náum að koma skilaboðum á milli.

Þau mál sem hefur borið hér helst á góma er ýmis gagnrýni þar sem markaðurinn er talinn hafa brugðist og samfélagið þurfi að koma inn. Fyrir hálfum öðrum áratug bjuggum við hér við stofnun sem hét Póstur og sími og sinnti nánast öllum þessum málum. Nánast öll fjarskiptamál voru undir hennar hatti. Þessari stofnun tókst að tryggja okkur á Íslandi, við sín grænu borð, ódýrustu og bestu innanlandssímaþjónustu sem um getur í víðri veröld, það var veruleikinn, og skilaði auk þess 2–3 milljörðum í ríkissjóð á hverju einasta ári. Þarna var unnið að uppbyggingu þessara kerfa.

Síðan var þetta einkavætt og ég man eftir mörgum fjálglegum ræðum úr munni hv. þm. Péturs H. Blöndals og hans félaga margra, margra þeirra sem hafa núna ákveðnar efasemdir. Þá kem ég aftur inn á gagnrýnisraddirnar sem komið hafa um þau svæði sem sinna, að því er talið er, ekki nægilega grunnþjónustu og almannavaldið eða samfélagið þarf með einhverjum hætti að koma inn.

Á að þjóðnýta aftur grunnnetið? Á að þjóðnýta landslénið .is? Þetta eru spurningar sem hafa verið orðaðar hér í þingsal. Ég vildi gjarnan að sá háttur yrði hafður á en ég geri mér jafnframt grein fyrir því að við höfum ekki fjármunina til að ráðast í það verk, það er bara staðreynd. Hvað gerum við þá? Þá búum við til annað kerfi til að sinna hinum samfélagslegu þörfum. Þetta gerum við með tvenns konar sjóðakerfi. Annað er þegar komið vel í gagnið, hitt er í burðarliðnum. Hvað er það? Annars vegar er það alþjónustusjóður sem verður fjármagnaður með veltufjármagni frá fjarskiptafyrirtækjum. Hingað til hefur verið litla peninga þar að finna. Hins vegar er fjarskiptasjóður. Hann er fjármagnaður með því að bjóða út tíðnir og taka tiltekna prósentu, afar lága, inn í sjóðinn og færa þannig fjármuni frá þeim sem búa við bestu þjónustuna til þeirra sem búa við lökustu þjónustuna.

Ein spurningin gekk út á það hér við umræðuna hvort við værum með þessu móti að íþyngja fjarskiptafyrirtækjunum. Ég hygg að svo sé ekki. Auðvitað eru allar álögur íþyngjandi á einhvern hátt, en hér erum við að tala um fjármuni sem eru af stærðargráðunni 300 milljónir. Það eru ekki ýkja miklir peningar. Þessa peninga notum við síðan til uppbyggingar á fjarskiptakerfunum. Verða staðlarnir og grunnreglurnar, grunnkröfurnar, alþjónustukröfurnar, endurskoðuð? Ítrekað var spurt um það. Já, í þessari áætlun segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Staðlar og gæðaviðmið fjarskiptaþjónustu verði endurskoðuð og eftir atvikum gefnar út reglur þar að lútandi. Kannanir verði gerðar reglulega hjá þjónustuveitum, niðurstöður birtar opinberlega og úrbótaþörf fylgt eftir.“

Varðandi þær spurningar sem komu og vísa til tiltekinna landsvæða, mig minnir að það hafi verið í Borgarfirði eða á Vesturlandi annars vegar og hins vegar fyrir norðan, án þess að ég gefi nokkuð út á hvað út úr slíku kann að koma þá verður þetta einfaldlega athugað og kannað hvort þau fyrirtæki sem sjá um háhraðatengingar og þjónustu sinni þeim lágmarkskröfum sem samfélagið setur. Þetta verður skoðað.

Síðan erum við eins og ég segi og ítreka það að hækka þessa viðmiðunarstaðla þannig að þjónustan verði betri, vegna þess að þar held ég að við séum öll í þessum sal einhuga um að líta beri á fjarskiptaþjónustu sem grunnréttindi í þjóðfélaginu. Þegar fólk flyst landshorna á milli spyr það um margt: Hvernig er þjónustan fyrir börnin mín, fyrir þá sem eiga við heilsubrest að stríða, hvernig er menntakerfið og hvernig eru fjarskiptin? Hvaða möguleika hef ég á að komast í samband við umheiminn í gegnum tölvuna mína? Og þá skiptir hraðinn þar miklu máli líka.

Þetta er það sem við erum að gera í gegnum það sjóðakerfi sem við búum við, fjarskiptasjóðinn og síðan þennan alþjónustusjóð. Þar kemur samfélagið inn og rækir skyldur sínar í nýju regluverki á nýjan hátt. Ég segi við hv. þm. Pétur H. Blöndal: Við eigum ekki að binda okkur um of í formin, við eigum að horfa á lausnirnar og niðurstöðurnar, þær lausnir og niðurstöður sem við erum öll sammála um. Hér var skrúfa á sál frjálshyggjunnar um nokkurra ára skeið, menn bundu sig við tiltekna lausn jafnvel þótt niðurstöður og reynsla erlendis frá sýndi að þar væru menn komnir í öngstræti en alltaf var haldið áfram.

Spurt var um framlag til að efla fjarskipti á ögurstundu, í neyðartilvikum, og vísað í fjármuni sem fjárveitingavaldið veitti til þess, það voru 20 milljónir. Þetta gekk fram og var látið renna til Neyðarlínunnar til fjárfestinga í búnaði sem á að nota sérstaklega til þessara þarfa.

Síðan vil ég undir lokin koma að mikilvægu málefni sem hefur verið orðað við þessa umræðu, nú síðast af hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni og þar áður af hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Það er Pósturinn og hvernig standi á því að við reisum ekki einhverjar varnir gegn Evrópuþróun í þeim efnum. Minnt var á það að ég hefði jafnan verið mjög andvígur einkavæðingu Póstsins og markaðsvæðingu hans og það er alveg rétt, ég hef verið það. Í þessari áætlun segir að við munum innleiða tilskipun EES eftir þörfum. Þetta er talið vera loðið orðalag og ég er sammála því. Líka var vísað til þess í þessari umræðu að Íslendingar ættu að fara að dæmi Norðmanna sem telja að þjónustutilskipunin varðandi póstinn eigi ekki að heyra undir EES-samninginn. Norðmenn hafa tekið upp viðræður og óskað eftir frekari viðræðum við Evrópusambandið um þetta efni. Ég get skýrt frá því hér og nú að það hafa Íslendingar líka ákveðið að gera. Fulltrúi innanríkisráðuneytisins sem kemur að þessum samningum fór með þau skilaboð í utanríkisráðuneytið í morgun að við vildum fylgja dæmi Norðmanna hvað þetta snertir og kanna hvort við gætum komið tilskipuninni um póstmál undan EES-samningnum og að við mundum hafa hliðsjón af því hvað Norðmenn gera í þessum efnum. Þetta tel ég vera afar mikilvægt mál og er algerlega sammála þeim þingmönnum sem gagnrýnt hafa innleiðingu á þjónustutilskipuninni um póstinn. Við erum með öðrum orðum að reisa hér varnir (Forseti hringir.) á þessu sviði.