140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Farsýslan, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

272. mál
[13:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ekki hafa margir tekið þátt í henni en hún hefur verið málefnaleg og hefur hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, margra manna maki í málefnalegri aðkomu að þessu máli, vakið máls á ýmsum þáttum. Ég vil taka undir mjög margt í hans málflutningi og þá sérstaklega það að þegar Alþingi tekur ákvarðanir þurfa þær að byggja á traustum upplýsingum. Hann kallar eftir upplýsingum um þær staðhæfingar sem fram eru settar í greinargerð með frumvarpinu um fjárhagslegan ávinning af þessum kerfisbreytingum, 11% lækkun kostnaðar þegar á heildina er litið svo að dæmi sé tekið, og hann vill fá að sjá tölulegar upplýsingar og þau módel sem notuð eru til að finna þetta út. Það verður að sjálfsögðu gert og mun ráðuneytið gefa slíkar upplýsingar í umræðunni í samgöngunefnd þingsins þegar þar að kemur. Ég vil taka undir að það er mjög mikilvægt að á slíkum upplýstum grunni taki fjárveitingavaldið og löggjafarvaldið sínar ákvarðanir.

Síðan er það hinn þátturinn sem er kerfislægur ávinningur af því að sameina þessar stofnanir, sem ég hef lagt höfuðáherslu á í málflutningi mínum. Ég tel að við séum að svara kalli tímans, sem við þegar höfum gert í áætlanagerð okkar hvað varðar samgöngumál með því að færa þær inn í sama pakkann, þ.e. flugmál, sjóferðamál og flutning á landi. Við sjáum mikinn ávinning í því að aðlaga stofnanakerfið að þeirri breyttu hugsun að horfa heildstætt á samgöngumál. Ég vék sérstaklega að því í andsvari fyrir hádegi að þegar við fjölluðum um samgöngur við Vestmannaeyjar komu þar að borði fulltrúar Siglingastofnunar, Vegagerðarinnar og innanríkisráðuneytisins, aðilar sem fjalla um sameiginlegt viðfangsefni.

Hv. þingmaður kallar eftir nánari umræðu, ítarlegri umræðu og upplýsingum um það hvers vegna þau skref séu ekki stigin sem hann segir að hafi verið mál manna í samgöngunefnd síðast þegar málið kom fyrir að við ættum að skoða, þ.e. að færa tiltekna þætti annað. Þá er hann væntanlega að vísa til sameiginlegrar stofnunar hafs og strandar sem oft hefur verið til umræðu. Við höfum skoðað þetta þótt ég reiði ekki fram nein skrifleg gögn um það en við höfum átt viðræður við hlutaðeigandi aðila, þar á meðal fulltrúa þessara stofnana, og eftir þær viðræður sjáum við ekki forsendur fyrir því að stíga þetta skref að svo stöddu, teljum það ekki æskilegt. Hins vegar viljum við halda því opnu að hægt verði að færa tiltekna þætti sem snúa að vitamálum og ýmsu sjávarmegin í þessari stofnun á milli stofnana. Hv. þingmaður vék sérstaklega að því í máli sínu áðan. Það er allt opið en við teljum æskilegt að stíga þetta skref núna og skoða síðan hvort við eigum að skáka einhverjum verkefnum til á síðari stigum í stað þess að bíða enn eitt árið þar til full eining verður um alla þætti þessa máls.

Ég held að eðli máls samkvæmt verði alltaf ágreiningur um kerfisbreytingar af þessu tagi. Ég tel að þær eigi að eiga sér góðan aðdraganda, það sé ekki verra að þær taki sinn tíma til að fá umræðuna þroskaða, öll sjónarmið komist að. Ég tel að við séum að ná því markmiði núna og það sé kannski einum of í lagt hvað það snertir því að þetta hefur dregist úr hófi fram að mínu mati.

Ég vil taka undir ýmislegt sem þarna kemur fram og líka varnaðarorð um meintan ávinning. Ég hef svolítið verið á svipuðum nótum sjálfur. Ég tel að menn hafi oft ætlað meiri fjárhagslegan ábata og ávinning af kerfisbreytingum en reyndin hefur orðið. Reyndar hefur verið lögð áhersla á það af hálfu embættismanna í innanríkisráðuneytinu að allir slíkir útreikningar byggi líka á því hvernig staðið er að málum frá upphafi, þ.e. mikil fjárfesting í grunnbreytingu á upphafsstigi geti leitt til sparnaðar þegar til lengri tíma er litið og ekki bara sparnaðar heldur ávinnings í allri starfseminni. Ef hins vegar naumt er skammtað í upphafi þá náum við aldrei að nýta samlegðaráhrifin og þá kosti sem sameiningin, uppstokkunin og hagræðingin á að hafa í för með sér.

Ég mun gera mitt til þess að hv. þingmaður fái allar þær tölulegu upplýsingar sem hann hefur kallað eftir og við tökum þá umræðu. En hvað sem kann að koma út úr því, því að þetta eru að sjálfsögðu allt ágiskanir og getur aldrei orðið annað, við erum að tala um veröld sem er ekki orðin heldur líkindareikning, þá legg ég áherslu á að við skoðum ekki síður þann ávinning sem verður af því að sameina kraftana.