140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

Vegagerðin, framkvæmdastofnun samgöngumála.

273. mál
[14:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að hv. þingmaður er glaður. Ég veit að það gleður hann enn meira að kjarnann í máli hans varðandi dreifingu valds með þessum hætti út á landsbyggðina er að finna í stefnu stóra kaupfélagsins, þ.e. Evrópusambandsins. Það hefur nákvæmlega þessa stefnu. Það er því alveg dásamlegt að heyra að hv. þingmaður er líka búinn að uppgötva að ýmsa eðalmálma er hægt að finna í stefnunni þar.

Það kann líka að koma hv. þingmanni á óvart að af hógværð sem er þessum ráðherra meðfædd þá vildi ég ekki rifja upp nein afrek í tíð þessarar ríkisstjórnar eða þeirrar sem ég sat í síðar. Þó má geta þess að áður en ég fór úr iðnaðarráðuneytinu lagði ég drög að því sem byggðamálaráðherra að sjö starfsmenn yrðu fluttir á Hólaskóla til að sinna þar sérstaklega tilteknum málum af hálfu ríkisins gagnvart ferðaþjónustunni. Látum það vera. Það varð aldrei að veruleika.

Núna get ég hins vegar glatt hv. þingmann með því að skammt er síðan ég réð sem utanríkisráðherra fjóra starfsmenn í kjördæmi hans til Ísafjarðar við útibú Þýðingamiðstöðvarinnar. Sömuleiðis hefur þessi utanríkisráðherra líka fjölgað starfsmönnum í útibúi þeirrar miðstöðvar á Akureyri og hefur sömuleiðis ráðið, að ég held, átta manns í vinnu á Austurlandi við hið sama. Sitthvað höfum við verið við að sýsla svo hv. þingmaður þarf ekki að óttast að það sneiðist um hólmann þar sem barist er um þetta. Þarna erum við sammála, en hv. þingmaður sem ég hélt að fylgdist mjög nákvæmlega með allri starfsemi utanríkisráðuneytisins virðist ekki vita að utanríkisráðuneytið hefur verið ákaflega virkt í því að koma fyrir störfum úti á landi.

Svo verð ég í síðasta sinn að hryggja hv. þingmann með því að ég ræð ekki fyrir þeirri stofnun sem hann nefndi undir lok máls síns. En ef hv. þingmaður vill flytja og koma í gegn breytingartillögu um að Vegagerðin heyri undir utanríkisráðuneytið þá skal ég athuga það mál.